Enski boltinn

Ráðningin á Lampard varð til þess að Alli valdi Everton

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Í skýjunum með hvorn annan.
Í skýjunum með hvorn annan. vísir/Getty

Enski miðjumaðurinn Dele Alli gekk til liðs við Everton frá Tottenham á síðasta degi félagaskiptagluggans.

Skömmu áður hafði Everton gengið frá ráðningu á Frank Lampard sem knattspyrnustjóra og það var það sem gerði það að verkum að Alli var tilbúinn til að ganga til liðs við félagið.

„Lampard er stórkostlegur stjóri og líka stórkostleg manneskja,“ segir Alli.

Alli þótti einn mest spennandi fótboltamaður heims fyrir nokkrum misserum en óhætt er að segja að hlutabréfin í honum hafi hrunið undanfarin ár. 

Hann er þó aðeins 25 ára gamall og ef marka má hans eigin orð er Lampard rétti maðurinn til að koma ferli Alli aftur af stað.

„Það er frábært að tala við hann og ég dýrkaði hann sem leikmann. Mér finnst hans árangur sem stjóri hingað til vera frábær.“

„Hann þekkir mig mjög vel sem leikmann og ég veit hvernig fótbolta hann vill spila. Mér finnst við henta hvor öðrum fullkomlega og ég get ekki beðið eftir að byrja að spila,“ segir Alli sem sér ákveðin líkindi með sér og Lampard sem er einn besti miðjumaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

„Hann var sóknarsinnamður miðjumaður og skoraði auðvitað fullt af mörkum sem miðjumaður. Ég talaði mikið um hans feril við hann og hvað hann gerði til að ná svona miklu út úr sínum ferli,“ segir Alli.

Kaupverðið á Alli gæti farið upp í 40 milljónir punda en kaupsamningurinn er uppfullur af ýmis konar ákvæðum, annars vegar tengdum framlagi Alli og hins vega árangri Everton með hann innaborðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×