Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Valur 57-66| Valur vann toppliðið

Andri Már Eggertsson skrifar
visir-img
vísir/vilhelm

Valur komst aftur á sigurbraut er liðið vann Njarðvík sem er í efsta sæti Subway-deildar kvenna. Fyrri hálfleikur Vals lagði grunninn að níu stiga sigri 57-66.

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, sagði í viðtali fyrir leik að síðasti leikur sat í þeim og það væri mikið hungur í liðinu að hefna fyrir tólf stiga tap gegn Breiðablik.

Valur valtaði yfir Njarðvík í fyrsta leikhluta. Það var mikil orka í varnarleik Vals sem heimakonur náðu engan veginn að leysa. Njarðvík skoraði ekki stig í sex og hálfa mínútu og gerðu aðeins sjö stig á fyrstu tíu mínútunum.

Valur byrjaði annan leikhlutann á að setja þriggja stiga körfu og virtist sjálfstraust Njarðvíkur vera í molum. Aliyah A'taeya skoraði loksins fyrir Njarðvík eftir að gestirnir höfðu gert fjórtán stig í röð.

Sóknarlega var annar leikhluti töluvert betri hjá Njarðvík heldur en sá fyrsti. Sóknarleikurinn virtist hafa tekið mikinn toll því varnarleikurinn versnaði fyrir vikið. Valur var nítján stigum yfir í hálfleik 25-44.

Það virtist vera taugaóstyrkur í báðum liðum til að byrja með síðari hálfleiks. Liðin töpuðu samanlagt fjórum boltum áður en Njarðvík gerði fyrstu körfuna í seinni hálfleik. Eftir það fór boltinn að rúlla.

Njarðvík spilaði vel á báðum endum vallarins í þriðja leikhluta og tókst að saxa forskot Vals niður í þrettán stig á tíu mínútum. Gestunum tókst aðeins að skora átta stig í 3. leikhluta.

Úrslit leiksins voru ráðin um miðjan 4. leikhluta. Valur náði alltaf að kreista út stig þegar Njarðvík hótaði að komast inn í leikinn. Þrátt fyrir að Njarðvík vann bæði þriðja og fjórða leikhluta var níu stiga tap niðurstaðan 57-66.

Af hverju vann Valur?

Fyrri hálfleikur Vals var frábærlega útfærður á báðum endum vallarins. Það gekk allt upp hjá gestunum sem voru nítján stigum yfir í hálfleik. 

Þrátt fyrir meiri mótspyrnu í seinni hálfleik fann Valur alltaf leiðir að körfunni þegar á þurfti. 

Hverjar stóðu upp úr?

Ameryst Alston var allt í öllu í leik Vals. Hún skoraði 29 stig, tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. 

Ásta Júlía Grímsdóttir endaði með tvöfalda tvennu. Ásta Júlía skoraði 10 stig og tók 13 fráköst. 

Hvað gekk illa?

Njarðvík lenti í miklum vandræðum með Val undir körfunni. Valur tók tólf fráköstum meira en Njarðvík og skoraði átta stigum meira inn í teig. 

Hvað gerist næst?

Næsta sunnudag fer Njarðvík í Ólafssal og mætir Haukum klukkan 18:30.

Miðvikudaginn eftir viku mætast Njarðvík og Breiðablik í Smáranum klukkan 19:15.

Rúnar: Brugðumst illa við mótlætinu

Rúnar Ingi var svekktur með tap kvöldsinsVísir/Bára Dröfn

Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var afar svekktur með tap kvöldsins.

„Við brugðumst illa með mótlætinu. Valur byrjaði leikinn betur og náði forskoti en þá voru tæplega fimm mínútur búnar og hellingur eftir. Við höfðum ekki trú á því sem við vorum að gera, leikmennirnir voru stressaðir og fórum við snemma úr því sem við ætluðum að gera.“

„Við leyfðum Val að stjórna okkur, við fórum trekk í trekk erfiðu leiðina. Þegar einn leikmaður var ekki á réttu stað þá hættu allir að spila körfubolta og verðum við að finna lausn á því hvernig við bregðumst við þegar leikkerfi eru ekki fullkomin,“ sagði Rúnar afar svekktur.

Seinni hálfleikur Njarðvíkur var töluvert betri og var Rúnar ánægður með varnarleikinn.

„Við spiluðum mjög góða vörn í seinni hálfleik, sóknarlega tókst okkur ekki að tengja margar körfur í röð. Þegar við náðum að saxa á forskot Vals þá vorum við klaufar og fórum að brjóta í þriggja stiga skoti og náðum við aldrei að komast í þá stöðu að geta minnkað þetta í tveggja körfu leik,“ sagði Rúnar Ingi að lokum.

Ólafur Jónas: Mikilvægt að vinna frákastabaráttuna gegn Njarðvík

Ólafur Jónas var ánægður með úrslitinVísir/Bára Dröfn

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var afar ánægður með sigur kvöldsins.

„Mér fannst orkustigið hárrétt í leiknum. Við vissum að Njarðvík myndi mæta inn í leikinn með mikla orku og vildum við gera betur en andstæðingurinn á því sviði.“ 

„Markmið leiksins var að taka fleiri fráköst en Njarðvík sem við gerðum. Það skiptir miklu máli að halda Njarðvík frá körfunni og gefa þeim bara eitt tækifæri í hverri sókn,“ sagði Ólafur Jónas.

Eftir góðan fyrri hálfleik skoraði Valur aðeins átta stig í þriðja leikhluta og fór Njarðvík að saxa á forskot Vals. 

„Njarðvík gerði vel í seinni hálfleik. Vörnin þeirra var betri sem við áttum í miklum erfiðleikum með. Við vissum að við myndum ekki skora aftur 44 stig á tuttugu mínútum svo við reyndum að stilla okkur inn á það að seinni hálfleikur væri nýr leikur,“ sagði Ólafur Jónas að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira