Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Grindavík 85-65 | Öruggur Keflavíkursigur

Siggeir Ævarsson skrifar
visir-img
vísir/bára

Keflavík tók á móti Grindavík í Subway-deild kvenna í kvöld en bæði lið hafa farið nokkuð brösulega af stað og eru í neðri hluta deildarinnar nú þegar deildin er rúmlega hálfnuð. Fyrir leikinn hafði Keflavík aðeins unnið einn sigur í síðustu 8 leikjum, og einn af þremur sigrum Grindavíkur kom einmitt á móti Keflavík fyrr í vetur. Fyrirfram var þessi leikur því galopinn fyrir bæði lið að vinna.

Grindavík mætti til leiks með aðeins 8 leikmenn á skýrslu í kvöld. Þríburarnir Anna, Natalía og Thea Lucic Jónsdætur voru allar í sóttkví og þá sleit Alexandra Eva krossband á dögunum og verður ekki meira með í vetur. Ekki reyndist unnt að fylla upp í hópinn með leikmönnum úr yngri flokkum þar sem KKÍ leyfir ekki neinar breytingar á leikmannalistum eftir 31. janúar.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað. Grindavík komst í 0-4 en Keflavík komst fljótlega í 8-11 og liðin skiptust á að skora. Fyrsti leikhlutinn var nokkuð jafn, Keflvíkingar þó skrefi á undan en Daniela Morillo var svo til einráð í stigaskorun, með 15 af 23 stigum liðsins, enginn annar með meira en 2.

Það má sennilega færa þennan sigur til bókar sem seiglusigur hjá Keflavík. Eftir hvern leikhluta af fyrstu þremur breikkaði bilið aðeins á milli liðanna. Grindavík var þó aldrei langt undan án þess þó að ná að ógna forystu Keflavíkur á afgerandi hátt. Um miðjan þriðja leikhluta fór að draga all verulega í sundur með liðunum og undir lok leiks fjaraði svo algerlega undan leik Grindavíkur.

Lokatölur 85-65 en 20 stiga munur gefur kannski ekki alveg rétta heildarmynd af leiknum. Fáliðaðar Grindavíkurkonur voru augljóslega orðnar nokkuð þreyttar undir lokin og lítið eftir á bensíntanknum og heimakonur gengu á lagið síðustu mínúturnar og lönduðu að lokum nokkuð þægilegum sigri.

Af hverju vann Keflavík?

Ofur einfaldaða svarið er af því að þær voru með Daniela Wallen Morillo í sínu liði í kvöld. Daniela átti einn besta leik sem sést hefur í deildinni í vetur og klikkaði varla úr skoti (15 af 18 utan af velli). Hún endaði með 35 stig, 14 fráköst, 6 stoðsendingar og 4 stolna bolta, sem gefa 53 framlagspunkta sem er jöfnun á hæsta framlagi vetrarins. Framan af leik var hún svo til einráð í stigaskorun en eftir því sem leið á leikinn settu fleiri leikmenn mark sitt á hann, Anna Ingunn með 14 stig og Eygló og Tunde Killin báðar með 11.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikurinn hjá Grindavík var ekki uppá marga fiska í kvöld. Skotnýtingin léleg og mikið mæddi á Robbi Ryan sem var reglulega þrí- og fjórdekkuð. Hún skilaði þó sínu, 27 stigum, 11 fráköstum og 7 stoðsendingum. Það var helst Hulda Björk sem var með einhverju lífsmarki en Grindavík þarf að fá meira framlag frá fleiri leikmönnum sóknarlega, ekki síst þegar hópurinn er jafn þunnskipaður og í kvöld.

Hvað gerist næst?

Keflavíkingum er sennilega stórlega létt að hafa loks landað sigri og geta haft a.m.k. annað augað á sæti í úrslitakeppninni. Grindavíkurkonur halda bara áfram að safna í reynslubankann í efstu deild og halda áfram að vinna í þriggja ára planinu.

„Manni líður alltaf betur þegar maður vinnur en heldur þegar maður tapar“

Við spurðum, Jón Halldór Eðvaldsson, eða Jonna, þjálfara Keflavíkur, hvort það hefði ekki verið ákveðinn léttir að landa loks sigri eftir nokkuð langa taphrinu.

„Það er alltaf gott að vinna, þá líður manni alltaf betur heldur en þegar maður tapar. Það hefur engu að síður verið töluverð framför í liðinu frá þessari taphrinu sem við lentum í fyrir áramót. Þetta hefur bara verið nokkuð gott undanfarið. Ég var t.d. alls ekki óánægður með liðið mitt eftir þessa tvo leiki við Hauka en þær voru góðar í dag.“

Keflavík fékk rosalega einstaklingsframmistöðu frá Danielu í kvöld, en við spurðum Jonna hvað hann tæki jákvætt útúr þessum leik heilt yfir:

„Mér finnst leikmennirnir mínir vera að leggja sig fram, og það er kannski munurinn frá því sem var hérna fyrir áramót. Það eru allir að leggja sitt af mörkum og allir að reyna og það er aðalatriðið.“

Varðandi framhaldið þá sagðist Jonni aðeins horfa á næsta leik, sem hann minnti að væri gegn Breiðabliki, en áður en Jonni getur farið að leggja þann leik upp þar hann þó að mæta Valskonum 9. febrúar, en Blikum svo þann 16.

Fyrst og fremst ánægð með sigurinn í kvöld

Það var ekki annað hægt en að taka viðtal við Danielu Morillo eftir þessa mögnuðu frammistöðu. Við spurðum hana hvernig henni liði en hún var fram úr hófi hógvær og vildi lítið gera úr eigin frammistöðu:

„Ég er ánægð, en fyrst og fremst ánægð með sigurinn fyrir hönd liðsins. Við þurftum á þessum sigri að halda sem lið. Ég er mjög stolt af því hvernig allt liðið stóð sig í kvöld. Þegar við leggjumst allar á eitt og spilum saman sem lið þá eru okkur allir vegir færir.“

Á tímabili var engu líkara en Daniela gæti hreinlega ekki klikkað úr skoti. Við þráspurðum hana því útí eigin frammistöðu og hvernig henni hefði liðið inná vellinum:

„Ég var búin að undirbúa mig virkilega vel andlega í kvöld og Jonni hefur verið að hjálpa mér með þann hluta leiksins. Hann vill að ég skori aðeins meira og ég hef verið að reyna það sem tókst vel hér í kvöld. Ég hugsaði mér að tækla þennan leik með „Kobe mentality“ og ég held að það hafi tekist ágætlega.“

Aðspurð hvort að hún myndi endurtaka frammistöðuna í næsta leik sagðist hún ætla að halda áfram að undirbúa sig andlega með það að markmiði að hjálpa Keflavík að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Hennar persónulega markmið væri að bæta sig í hverjum leik, svo það er aldrei að vita nema framlagspunktametið verði slegið í næsta leik Keflavíkur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira