Enski boltinn

Arsenal staðfestir brottför Aubameyang

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aubameyang er ekki lengur leikmaður Arsenal.
Aubameyang er ekki lengur leikmaður Arsenal. EPA-EFE/NEIL HALL

Enska knattspyrnufélagið Arsenal hefur staðfest brottför framherjans Pierre-Emerick Aubameyang til Barcelona. Leikmaðurinn fer á frjálsri sölu, en Börsungar eiga enn eftir að ganga frá samningsmálum við framherjann.

Aubameyang gekk í raðir Arsenal í janúar 2018 fyrir 56 milljónir punda sem var á þeim tíma félagsmet. Framherjinn átti eitt og hálft ár eftir af samningi sínum við Lundúnaliðið.

Leikmaðurinn flaug til Barcelona í gær og sást á æfingu með liðinu í dag, en það kom forráðamönnum Arsenal þó á óvart að sjá framherja liðsins mættan til Spánar án þess að samningar milli liðanna væru í höfn.

Arsenal sendi þó frá sér tilkynningu nú í kvöld þar sem liðið staðfestir brottför Aubameyang og þakkar leikmanninum fyrir tíma sinn hjá félaginu.

Aubameyang lék 163 leiki fyrir Arsenal og skoraði í þeim 92 mörk. Þar á meðal voru tvö mörk í úrslitaleik FA-bikarsins sem tryggðu liðinu sigur í keppninni í fjórtánda sinn í sögunni, sem er met.

Þrátt fyrir þessi hlýju orð í garð framherjans voru seinustu vikur hans hjá félaginu ekki þær farsælustu. Aubameyang hefur ekki leikið fyrir liðið síðan 6. desember eftir að þjálfari liðsins, Mikel Arteta, setti hann í agabann. Í framhaldi af því missti Aubameyang fyrirliðabandið hjá Lundúnaliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×