Enski boltinn

Nýi leikmaður Liverpool glímdi við vannæringu sem krakki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luiz Diaz í leik með Porto í Meistaradeildinni.
Luiz Diaz í leik með Porto í Meistaradeildinni. EPA-EFE/JOSE COELHO

Nýjasti leikmaður Liverpool á sér ævintýralega sögu en framtíðin var ekki björt þegar hann var að alast upp í Kólumbíu.

Kólumbíumaðurinn Luiz Diaz tók risastórt skref á fótboltaferli sínum um helgina þegar Liverpool keypti hann frá Porto í Portúgal. Saga hans er í raun ævintýraleg saga stráks sem tókst að vinna sig upp úr mikilli fátækt.

Luiz Diaz hefur spilað undanfarin þrjú ár með Porto í Portúgal eða síðan hann var 22 ára gamall. Hann er gríðarlega hæfileikaríkur leikmaður, getur notað báða fætur, er eldfljótur, með mikla tækni og getur skorað mörk. Það er margt spennandi við þennan leikmann ekki síst sú staðreynd að hann ætti að geta orðið enn betri undir leiðsögn Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool.

Árangur Luiz Diaz á fótboltaferlinum er ekki síst merkileg vegna þess hvaðan hann kemur. Hann er úr Wayuu-þjóðflokknum í Kólumbíu og kemur frá La Guajira svæðinu í Kólumbíu sem kólumbísk stjórnvöld hafa lengstum látið umhirðulaus.

Þar er fátæktin og eymdin mikil sem þýðir að líkurnar á að drengur komust þaðan í eitt besta fótboltafélag heims eru litlar sem engar.

Þegar þjálfarinn John Pocillo Diaz sá Luiz Diaz fyrst á úrtökuæfingum fyrir unglingalandslið Kólumbíu þá tók hann eftir því hversu vannærður og kraftlaus Luiz var. Hann hafði hins vegar hraða og tækni sem dugðu honum til að vinna sér sæti í liðinu.

Luiz náði að skapa sér nafn í heimlandinu og fékk frekari tækifæri með yngri landsliðunum. Á þessum árum lagði hann höfuðáherslu á að styrkja sig og þyngja sig enda þurfti hann mikið á því að halda. Í umfjöllun BBC kemur fram að hann hafi borðað pasta í morgunmat á þessum árum og tókst honum að þyngja sig um tíu kíló.

Hann varð kólumbískur meistari með Atletico Junior áður en hann færði sig yfir Atlantshafið til Porto í Portúgal sumarið 2019. Frægustu fótboltamenn Kólumbíu, Radamel Falcao og James Rodríguez, sannfærður hann um að fara frekar þangað en til Zenit Saint Petersburg.

Luiz vann sér sæti í liði Porto og stóð sig ágætlega en hann tók stóra stökkið á síðasta hálfa árinu.

Luiz Diaz var magnaður með kólumbíska landsliðinu í Suðurameríkukeppninni síðasta sumar þar sem hann skoraði á móti Brasilíu og Argentínu og endaði sem markahæsti maður keppninnar ásamt Lionel Messi. Hér fyrir ofan má sjá markið sem hann skoraði á móti Brasilíu.

Diaz kom með bullandi sjálfstraust inn í tímabilið með Porto og hefur skorað 14 mörk í 18 deildarleikjum á þessari leiktíð. Hann skoraði bæði í heima- og útileiknum á móti AC Milan í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×