Enski boltinn

Newcastle staðfestir komu Bruno | Gæti orðið dýrari en Joelinton

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Bruno Guimaraes
Bruno Guimaraes vísir/Getty

Brasilíski miðjumaðurinn Bruno Guimaraes er orðinn leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Newcastle United og gæti orðið dýrasti leikmaður félagsins frá upphafi.

Félagaskiptin hafa legið í loftinu undanfarnar vikur en í dag var loks tilkynnt um þau á miðlum enska félagsins.

Newcastle greiðir 35 milljónir punda til franska úrvalsdeildarliðsins Lyon en kaupverðið gæti hækkað upp í 42 milljónir punda, nái Newcastle ákveðnum árangri með Guimaraes innanborðs. Ef af verður, verður þessi 24 ára gamli Brasilíumaður dýrasti leikmaður í sögu Newcastle.

Hjá liðinu hittir hann fyrir landa sinn, Joelinton, sem á enn þann heiður að vera dýrasti leikmaður í sögu Newcastle en hann kostaði 40 milljónir punda þegar hann var keyptur frá Hoffenheim fyrir þremur árum síðan.

Stuðningsmenn Newcastle vona líklega að nýja Brasilíumanninum muni farnast betur en Joelinton. Sá var keyptur til liðsins sem sóknarmaður en hefur aðeins skorað ellefu mörk í 105 leikjum.

Ef marka má enska fjölmiðla er frekari leikmannafrétta að vænta frá Newcastle áður en lokað verður fyrir félagaskipti annað kvöld. Má ætla að Dan Burn muni færa sig um set frá Brighton til Newcastle á allra næstu klukkustundum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×