Innlent

„Reynum að láta ekki gremju eða reiði ná tökum á okkur“

Atli Ísleifsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson forseti flutti nýársávarp sitt fyrr í dag.
Guðni Th. Jóhannesson forseti flutti nýársávarp sitt fyrr í dag.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir ræddi óttann og áhrif hans í samfélagi í nýársávarpi sínu sem hann flutti fyrr í dag. Forsetinn fór þar meðal annars yfir stöðuna í íslensku samfélagi á tímum kórónuveirunnar og sagði að það væri án efa affarasælast að við öll, almenningur, sérfræðingar og stjórnvöld, myndum reyna að viðhalda þeirri einingu sem hafi gefist vel.

Guðni sagði að að sjálfsögðu gæti þreytu meðal fólks vegna faraldursins og að sjálfsögðu þurfi að hjálpa þeim sem verði fyrir búsifjum vegna ástandsins. Sömuleiðis þurfi sífellt að endurmeta þær leiðir sem séu í boði.

Forsetinn sagði þó að við ættum að reyna að viðhalda einingunni í samfélaginu í krafti sannfæringar og umræðu. Ekki ógnar og valdboðs, án þess að ágreiningur leiði til djúpstæðs klofnings í samfélaginu, og án þess að ótti nái á okkur heljartökum.

„Ótti er ekki alltaf ástæðulaus, því fer fjarri. Hann getur fyllt okkur brýnum krafti þegar að okkur er sótt. En hann er vondur förunautur frá degi til dags. Lymskulegu valdi hans er vel lýst í kvæði Nínu Bjarkar Árnadóttur um fugl óttans sem tekur manneskjuna í klærnar, flýgur einnig inn í brjóst hennar og veinar þar. Þannig vinnur óttinn víst.

Svo fær hann okkur jafnvel til að vera hvassyrtari en ella, stífari á okkar meiningu, tregari til að meðtaka önnur sjónarmið. Vel má vera að mörg ykkar kannist við þetta, sjálfur hef ég fundið þetta á eigin skinni. En reynum þá að gera betur. Reynum að láta ekki gremju eða reiði ná tökum á okkur,“ sagði Guðni.

Hlýða má á ávarpið í heild sinni í spilaranum að neðan og lesa á heimasíðu forsetaembættisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×