Erlent

Lögregla skaut á Covid-mótmælendur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mótmælendur kveiktu elda og lögregla skaut á mótmælendur og sprautaði á þá vatni.
Mótmælendur kveiktu elda og lögregla skaut á mótmælendur og sprautaði á þá vatni. EPA-EFE/VLN NIEUWS

Mótmælendur í hollensku borginni Rotterdam særðust þegar lögregla skaut á þá. Mótmælin í borginni, sem voru til komin vegna fyrirætlana stjórnvalda um að gera atvinnurekendum kleift að meina óbólusettum aðgang að ákveðnum svæðum, breyttust í óeirðir.

AP-fréttaveitan greinir frá því að ótilgreindur fjöldi mótmælenda hafi særst þegar lögregla skaut viðvörunarskotunum. Þá hafi óeirðalögregla notað kraftmikla vatnsbyssu til þess að koma mótmælendum af fjölfarinni götu í hafnarborginni.

Samkvæmt lögreglu hafa tugir verið handteknir í óeirðunum og sjö slasast, þeirra á meðal lögregluþjónar. Þá eru mótmælendur sagðir hafa kveikt elda á óeirðunum og kastað flugeldum.

Vilja takmarka réttindi óbólusettra

Hollensk stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til þess að leiða í lög heimild fyrir atvinnurekendur til þess að meina öðrum en þeim sem fullbólusettir eru fyrir kórónuveirunni aðgang að sínum fyrirtækjum. Heimildin myndi til að mynda ná til verslana, veitingastaða, öldurhúsa og annarra samkomustaða.

Ef lögin yrðu að veruleika yrði þannig ekki nóg að framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi til þess að vera veittur aðgangur að þeim stöðum sem kysu að nýta sér heimildina. Fólk sem þegar hefur sýkst af Covid-19 yrði þó undanþegið.

Metfjöldi hefur verið að greinast með kórónuveiruna í Hollandi á undanförnum dögum og stjórnvöld gripið til þess ráðs að setja á útgöngubann að hluta. Það tók gildi fyrir viku síðan.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem óeirðir brjótast út í Rotterdam vegna ráðstafana tengdum faraldrinum. Í janúar á þessu ári kom til óeirða eftir að stjórnvöld settu á útivistartíma til þess að reyna að draga úr útbreiðslu Covid í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×