Innlent

Óska eftir sjálf­boða­liðum til að­stoðar flótta­fólki

Þorgils Jónsson skrifar
Sex fjölskyldur flóttafólks frá Sýrlandi komu til landsins í síðustu viku. Von er á enn fleiri svo kölluðum kvótaflóttamönnum til landsins á næstu vikum og lýsir Rauði krossinn eftir sjálfboðaliðum til að aðstoða fólkið við að aðlagast og festa rætur.
Sex fjölskyldur flóttafólks frá Sýrlandi komu til landsins í síðustu viku. Von er á enn fleiri svo kölluðum kvótaflóttamönnum til landsins á næstu vikum og lýsir Rauði krossinn eftir sjálfboðaliðum til að aðstoða fólkið við að aðlagast og festa rætur.

Rauði krossinn óskar eftir fleiri sjálfboðaliðum til að aðstoða flóttafólk sem er nýkomið og væntanlegt til landsins.

Í frétt á vef Rauða krossins segir að í síðustu viku hafi sex sýrlenskar fjölskyldur, alls 33 einstaklingar, komið til landsins í boði stjórnvalda. Enn er von á þremur fjölskyldum til viðbótar frá Sýrlandi. Um er að ræða svokallaða kvótaflóttamenn sem íslensk stjórnvöld bjóða vernd.

Fjölskyldurnar eru nú í sóttkví en að henni lokinni flytja þær til þeirra sveitarfélaga þar sem þau munu fá stuðning næstu ár. Þau eru Árborg, Reykjavík, Hafnarfjörður og Akureyri.

Um miðjan næsta mánuð er von á afgönsku flóttafólki frá Íran og eftir það er gert ráð fyrir einstaklingum frá ýmsum Afríkuríkjum sem munu koma frá Kenýa.

Í fyrrnefndri frétt segir að samtökin sinni hlutverki sínu við móttökuna í nánu samráði og samvinnu við stjórnvöld, félagsþjónustur sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila eins og Fjölmenningarsetur og Vinnumálastofnun.

Meginverkefni sjálfboðaliða og starfsmanna Rauða krossins sé að veita flóttafólki sálfélagslegan stuðning leiðsögu-og tungumálavina enda sýni reynslan að það að „greiða fyrir tengslum inn í samfélagið gegnum persónulegan vinskap getur skipt sköpum við að festa hér rætur“.

Því er lýst eftir fleiri sjálfboðaliðum í þetta verkefni, sérstaklega í grennd við fyrrnefnd sveitarfélög og Reykjanesbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×