Erlent

Ný eldflaug sprakk í loft upp í fyrsta geimskotinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Sprengingsadg

Alpha, ný eldflaug bandaríska fyrirtækisins Firefly Aerospace, sprakk í loft upp skömmu eftir flugtak frá Kaliforníu í gær. Þetta var í fyrsta sinn sem eldflaug af þessari gerð er skotið á loft en fyrirtækið hefur unnið að þróun þeirra í nokkur ár.

Eldflaugarnar á að nota til að skjóta tiltölulega smáum gervihnöttum á braut um jörðu.

Samkvæmt frétt SpaceFlightNow eiga eldflaugarnar að geta borið þúsund kíló í lága sporbraut eða um 630 kíló í háa sporbraut.

Eldflauginni var skotið á loft frá Vandenberg herstöðinni í gærkvöldi.

Eftir tæpar tvær mínútur kom í ljós að eldflaugin hafði ekki náð þeim hraða sem hún átti að vera á og skömmu seinna sprakk hún í loft upp. Það var tveimur mínútum og 29 sekúndum eftir að eldflauginni var skotið á loft.

Í yfirlýsingu frá Firefley segir að „frávik“ hafi átt sér stað og það hafi „endað geimskotið snemma“. Þá kemur fram að engan hafi sakað.

Forsvarsmenn fyrirtækisins segja einnig að þrátt fyrir að Alpha-eldflaugin hafi ekki náð út í geim hafi starfsmenn fyrirtækisins lært mikið og safnað miklu magni gagna til að vinna úr og læra enn meira.

Sjá má sprenginguna hér.

Lengra myndband af tilraunaskotinu öllu, aðdraganda þess og umræðu í kjölfarið má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×