Sport

Djokovic sigraði á Wimbledon og jafnaði met Federers og Nadal

Valur Páll Eiríksson skrifar
Djokovic varði Wimbledon-titil sinn síðan í fyrra og getur skrifað söguna á Opna bandaríska meistaramótinu í haust.
Djokovic varði Wimbledon-titil sinn síðan í fyrra og getur skrifað söguna á Opna bandaríska meistaramótinu í haust. Clive Brunskill/Getty Images

Serbinn Novak Djokovic vann sjötta Wimbledon-titil sinn í tennis í Lundúnum í dag eftir sigur á Ítalanum Matteo Berrettini í úrslitum. Með því jafnaði hann met yfir flesta risatitla á ferlinum.

Djokovic vann Berrettini í fjórum settum í dag. Eftir að hafa tapað því fyrsta 6-7 vann hann næstu þrjú 6-4, 6-4 og 6-3 fyrir framan 15 þúsund manns á Centre Court í Lundúnum. Berrettini var að taka þátt í sínum fyrstu úrslitum á risamóti og fékk góðan stuðning úr stúkunni sem honum tókst ekki að færa sér í nyt.

Djokovic er að vinna þriðja risatitil sinn á þessu ári, eftir að hafa unnið bæði Opna ástralska og Opna franska, en slíkt hefur ekki hent síðan 1969 þegar Rod Laver vann fyrstu þrjú risamótin á sama tímabilinu.

Djokovic er þá að vinna Wimbledon-mótið þriðja mótið í röð en hann vann einnig 2018 og 2019. Mótið var ekki haldið í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins.

Djokovic var þá að vinna sinn tuttugasta risatitil á ferlinum en enginn hefur unnið fleiri. Spánverjinn Rafael Nadal og Svisslendingurinn Roger Federer deila metinu með Serbanum.

Djokovic getur orðið fyrsti karlinn í sögunni til að vinna öll fjögur risamótin á sama árinu, en Opna bandaríska meistaramótið fer fram í haust.

Aðeins hin þýska Steffi Graf hefur afrekað það árið 1988 en þá vann hún einnig Ólympíugull auk risamótanna fjögurra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×