Fótbolti

Segir þá ensku finna lykt af gulli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pickford og Rice fagna eftir sigurinn á Wembley í dag. Þeim er væntanlega slétt sama um leikaðferðina, svo lengi sem þeir vinna.
Pickford og Rice fagna eftir sigurinn á Wembley í dag. Þeim er væntanlega slétt sama um leikaðferðina, svo lengi sem þeir vinna. Eddie Keogh/Getty

Margrét Lára Viðarsdóttir, spekingur Stöðvar 2 Sports, hrífst ekki af leikstíl enska landsliðsins í fótbolta en segir hann árangursríkan.

Margrét Lára, Atli Viðar Björnsson og Kjartan Atli Kjartansson gerðu upp 2-0 sigur Englands á Þýskalandi í EM í dag.

Kjartan Atli nefndi að það væri mikil og góð stemning í enska hópnum og stjórinn Gareth Southgate væri með góð tök á hópnum.

„Það er gulls ígildi að leikmennirnir séu tilbúnir að fórna sér fyrir liðið og fyrir liðsfélagana,“ sagði Margrét Lára. Hún hélt áfram:

„Þetta er þolinmæðisvinna og það er ekkert skemmtilegt að spila svona fótbolta þar sem maður fer lítið úr stöðum og tekur lítið af sénsum.“

„Þetta er ekki skemmtilegasti fótboltinn en þetta er mjög árangursríkt. Þeir eru búnir að halda hreinu alla keppnina. Það segir sitt. Þetta er að virka og þeir eru farnir að trúa því. Þeir eru farnir að finna lykt af gulli.“

Atli Viðar segir að þjálfarahæfileikar Southgates hafi hjálpað honum í vegferðinni.

„Það er í umræðunni að Southgate sé góður maður á mann. Hann sé duglegur að tala við þá og ég held að hann sé með yngsta meðalaldurinn í mótinu. Hann getur mótað leirinn eftir sínu höfði og þeir virðast vera kaupa hugmyndafræðina. Meðan það gengur vel þá eru allir um borð.“

England mætir annað hvort Svíþjóð eða Úkraínu í átta liða úrslitunum en sá leikur hefst klukkan 19.00.

Klippa: EM í dag - Umræða um England




Fleiri fréttir

Sjá meira


×