Innlent

Skrýtið tíst frá Al­þingi vekur lukku

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
alþingitweetar

Tíst frá opinberum aðgangi Alþingis á Twitter hefur vakið talsverða lukku meðal almennings í dag.

Aðgangurinn hefur hingað til aðallega tíst um dagskrár þingfunda, þingskjöl og samþykkt lög. Hann hefur ekki verið notaður frá því að þingið lauk störfum og fór í sumarfrí, þangað til í dag.

Tístið í dag var því heldur óvenjulegt: „prufa“ voru skilaboðin sem komu frá Alþingi í dag.

Óhætt er að fullyrða að tístið er það langvinsælasta sem Alþingi hefur sent frá sér en vanalega vekja deilingar aðgangsins á opinberum upplýsingum ekki mikil viðbrögð.

Þegar þetta er skrifað hafa hátt í sex hundruð manns brugðist við tístinu, sem er ansi mikið ekki síst vegna þess að fylgjendur Alþingis á Twitter eru ekki nema 105.

En hvað er Alþingi að „prufa“? Hingað til virðist aðgangur Alþingis á samfélagsmiðlinum hafa virkað vel en ef markmið prufunnar hefur verið að ganga úr skugga um að hann gæti enn tíst eftir níu daga hlé hefur prufan farið vel.

Vísir náði ekki í Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, til að fá skýringar á tístinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×