Erlent

Segja ekkert vopnahlé á borðinu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. EPA/DEBBIE HILL

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir ekkert vopnahlé til umræðu á milli Ísraela og Hamas-samtakanna. Enn geisa hörð átök og á þriðja hundrað hafa farist í loftárásum á Gasasvæðið.

Netanjahú boðaði til blaðamannafundar í Tel Aviv stuttu fyrir hádegi þar sem hann talaði um átökin og framtíðarhorfur. Hann sagði einungis tvær leiðir til að svara eldflaugaárásum Hamas-samtakanna. Annars vegar sé hægt að uppræta samtökin, hins vegar hræða þau frá slíkum árásum í framtíðinni.

„Nú erum við að aftra árásum af fullum krafti en við útilokum ekkert. Vonandi getum við komið á friði sem fyrst. Ég vil taka það fram að við erum að gera allt sem í valdi okkar stendur til að forðast mannfall almennra borgara,“sagði Netanjahú. 

Palestínska heilbrigðisráðuneytið segir tugi barna hafa farist í loftárásunum.

Bæði Netanjahú og heimildarmenn breska ríkisútvarpsins innan ísraelska hersins sögðu ekkert vopnahlé til umræðu þessa stundina. 

Franska fréttaveitan AFP hefur aðra sögu að segja en heimildarmenn hennar segja Ísraela nú vega og meta stöðuna og hvort rétt sé að hætta loftárásum til að koma á vopnahléi. Herinn sé þó tilbúinn til að halda árásunum áfram en til að vopnahlé sé möguleiki vill herinn fyrst vera viss um að geta Hamas til árása hafi minnkað mjög.

Fjöldi leiðtoga hefur farið fram á að vopnahléi verði komið á sem allra fyrst. Emmanuel Macron Frakklandsforseti þar á meðal, en hann vinnur með ráðamönnum í Egyptalandi og Jórdaníu að tillögu um vopnahlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×