Fótbolti

Berg­lind Björg skoraði er Le Havre stein­lá gegn Lyon

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Berglind Björg skoraði mark Le Havre í dag.
Berglind Björg skoraði mark Le Havre í dag. Le Havre

Íslendingalið Le Havre tapaði 5-1 á útivelli gegn Frakklandsmeisturum Lyon í frönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Íslenska þríeykið var í byrjunarliði Le Havre í dag. Anna Björk Kristjánsdóttir og Andrea Rán Hauksdóttir nældu sér báðar í gult spjald á meðan Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði eina mark í 5-1 tapi gegn Lyon á útivelli.

Berglind Björg minnkaði muninn í 2-1 þegar 22 mínútur voru liðnar af leiknum en Lyon bætti við marki áður en fyrri hálfleikur var úti. Staðan 3-1 í hálfleik og eftir tvö mörk í síðari hálfleik var staðan orðin 5-1 er flautað var til leiksloka.

Þríeykið lék allan leikinn en Sara Björk Gunnarsdóttir lék ekki með Lyon þar sem hún er ólétt. Mun hún ekki leika meira með liðinu á þessari leiktíð.

Le Havre er sem fyrr á botni deildarinnar með aðeins fimm stig þegar fjórar umferðir eru eftir. Liðið þarf allavega tvo sigra í síðustu fjórum leikjum sínum til að eiga möguleika á að halda sæti sínu og útlitið því svart. 

Á sama tíma fór Lyon á topp deildarinnar með sigrinum en París Saint-Germain á leik til góða og getur náð toppsætinu með sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×