Fótbolti

Hækkaður í tign innan Red Bull samsteypunnar og tekur við Leipzig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jesse March þykir hafa unnið afar gott starf hjá Red Bull Salzburg.
Jesse March þykir hafa unnið afar gott starf hjá Red Bull Salzburg. getty/Sven Hoppe

Bandaríkjamaðurinn Jesse March hefur verið ráðinn eftirmaður Julians Nagelsmann hjá þýska úrvalsdeildarliðinu RB Leipzig.

March er knattspyrnustjóri Red Bull Salzburg og heldur því áfram að starfa fyrir Red Bull fótboltasamsteypuna. Hann hefur bara verið hækkaður í tign.

Fyrr í vikunni var greint frá því að Nagelsmann tæki við Bayern München af Hansi Flick í sumar. Nagelsmann, sem er aðeins 33 ára, er á sínu öðru tímabili með Leipzig. Áður stýrði hann Hoffenheim.

March, sem er 47 ára, skrifaði undir tveggja ára samning við Leipzig sem er í 2. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar. Hann þekkir vel til hjá félaginu en hann var aðstoðarþjálfari þess tímabilið 2018-19.

March hefur starfað fyrir Red Bull fótboltasamsteypuna undanfarin sex ár en áður en hann fór til Leipzig stýrði hann New York Red Bulls í Bandaríkjunum.

March gerði Salzburg að tvöföldum meisturum á síðasta tímabili og liðið gæti endurtekið leikinn í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×