Innlent

Líknardeild hefur verið opnuð á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sem er mjög ánægð með opnun nýju deildarinnar.
Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sem er mjög ánægð með opnun nýju deildarinnar. Aðsend

Líknardeild hefur verið opnuð á sjúkrahúsinu á Selfossi en fjögur rúm eru á deildinni fyrir líknar og lífslokameðferð.

Nýju líknarrýmin eru rekin í tengslum við þau 18 rými, sem rekin eru við sjúkradeildina á sjúkrahúsinu á Selfossi á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Mikil ánægja er með opnun nýju deildarinnar.

„Við fengum fjárveitingu fyrir fjórum líknarrímum þannig að við veitum lífslokameðferð hérna á Hsu, sem er gríðarlega mikilvægt innlegg fyrir okkur. Það að geta sótt þessa þjónustu á erfiðum tímum er mikilvægt, bæði fyrir einstaklinginn og aðstandendur.Þannig að það er að fara vel af stað hjá okkur,“ segir Díana.

Líkardeild hefur aldrei áður verið á Suðurlandi.

„Nei, ekki svona skilgreind þjónusta. Við höfum alltaf veitt þjónustuna en hún hefur aldrei verið skilgreind svona sem lífslokarmeðferð.“

Díana segir nýju deildin verða mjög falleg og hugguleg.

„Núna eru rýmin bara inn á okkar deild en við erum að fara í endurbætur og lagfæringu þannig að þetta mun verða mjög falleg og hugguleg deild og halda mjög vel utan um sjúklinga og aðstandendur,“ segir Díana.

En hvaða þýðingu hefur það að hafa svona deild?

„Ég myndi segja að þetta skipti svo miklu máli, þetta er svo erfiður tími og þá er það bara að þjónustan hefur verið veitt hérna og fólk fær bara að halda áfram, það fer ekki frá sínum aðstandendum og aðstandendur hafa góðan aðgang að sínu fólki.“

Nýja deildin er á sjúkrahúsdeildinni á Selfossi en í líknarrými leggjast sjúklingar með sjúkdóma á lokastigi sem metið er að eigi innan við sex mánuði eftir ólifaða og hafa þjónustuþarfir umfram það sem mögulegt er að veita með sérhæfðri heimahjúkrun.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×