Innlent

Sjá ekki tengsl á milli þeirra fimm sem greindust utan sótt­kvíar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir enn sem komið er ekki hægt að sjá tengsl á milli þeirra fimm einstaklinga sem greindust með kórónuveiruna utan sóttkvíar í gær.

Smitrakning sé hins vegar enn í gangi og vel getur verið að hún leiði eitthvað í ljós varðandi hugsanleg tengsl smitanna. Þá gæti raðgreining einnig leitt eitthvað í ljós.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Hann sagði þessi fimm smit utan sóttkvíar vera á suðvesturhorninu en einnig teygja sig inn á Suðurland. Það væri merki um að ekki væri búið að ná utan um það samfélagssmit sem er í gangi.

Þórólfur sagði töluverðan fjölda hafa smitast innanlands undanfarna daga. Flestir væru í sóttkví en einnig hefðu nokkrir verið utan sóttkvíar og þau smit hafi reynst erfitt að rekja.

„Ákveðnar vísbendingar eru um að þessi hópur geti nú verið vaxandi því að í gær greindust átta innanlands og þar af voru einungis þrír í sóttkví, fimm utan sóttkvíar. Rakning stendur nú yfir og beðið er eftir niðurstöðu úr raðgreiningu en á þessari stundu eru engar vísbendingar um tengsl á milli þessara aðila. Þessi smit greindust öll á suðvesturhorni landsins en reyndar á Suðurlandi líka þannig að það eru greinilega merki um að við erum ekki búin að ná utan um samfélagssmit á þessari stundu,“ sagði Þórólfur.

Þá sagði hann að flestir þeirra sem hefðu greinst með veiruna í sóttkví tengdust smitum sem komu upp í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Það sama ætti ekki við um þá sem væru að greinast utan sóttkvíar.

„Stóran hluta þeirra sem hafa greinst utan sóttkvíar má rekja til ferðamanns eða ferðamanna sem greinst hafa í seinni skimun og virðist hafa farið óvarlega í sinni fimm daga sóttkví,“ sagði Þórólfur en ítrekaði að enn ætti eftir að raðgreina og rekja smitin fimm sem greindust utan sóttkvíar í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×