Fótbolti

„Eitt­hvað best spilandi lið sem ég hef spilað á móti í góðan tíma“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron í baráttunni við Goretzka, einn af markaskorurum þýska liðsins í kvöld.
Aron í baráttunni við Goretzka, einn af markaskorurum þýska liðsins í kvöld. EPA-EFE/Friedemann Vogel

„Mér fannst við vinna okkur betur inn í leikinn. Síðari hálfleikurinn var betri og þeir eru góðir að halda boltanum og erfitt að fá á okkur tvö mörk með stuttu millibili í byrjun. Það tók smá vindinn úr okkur,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands í samtali við RÚV eftir 3-0 tapið gegn Þýskalandi í kvöld.

Þeir þýsku byrjuðu af krafti í Duisburg í kvöld og voru komnir í 2-0 eftir sjö mínútur. Það tók á íslenska liðið.

„Við ætluðum að byrja af krafti og fara hærra á völlinn. Þetta var svekkjandi að ná ekki að klukka þá betur fannst mér en þetta er eitthvað best spilandi lið sem ég hef spilað á móti í góðan tíma.“

„Þetta var klúður hjá okkur. Við vorum of passífir og töpuðum boltanum á hættulegum stað í seinna markinu og okkur er refsað. Þá er þetta erfitt á móti liði sem finnst gott að halda boltanum.“

Fyrirliðinn var stoltur af síðari hálfleiknum.

„Í síðari hálfleik fannst mér við mæta þeim meira af krafti en auðvitað er auðveldara að spila pressulaust og fara ofar á völlinn. Það er hægt að taka ýmislegt jákvætt úr síðari hálfleiknum.“

„Í fyrra markinu erum við ekki búnir að snerta boltann. Hann dettur fyrir hann og hann klárar færið vel. Það sló okkur út af laginu en mér fannst við vera ná áttum og unnum okkur inn í leikinn. Við getum gert miklu betur en við gerðum í dag,“ sagði Aron að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×