Fótbolti

Áhorfendur í Ísrael annað kvöld

Anton Ingi Leifsson skrifar
Fimm þúsund áhorfendur fá að bera Eriksen augum í Ísrael annað kvöld.
Fimm þúsund áhorfendur fá að bera Eriksen augum í Ísrael annað kvöld. Angelo Blankespoor/Soccrates/Getty Images

Það verða áhorfendur á pöllunum er Ísrael og Danmörk mætast í undankeppni HM í Katar 2022 en kórónuveiran er í góðum málum þar í landi.

Um fimm þúsund manns verða á pöllunum annað kvöld en Kasper Hjulmand, þjálfari danska landsliðsins, staðfesti þetta á blaðamannafundi sínum nú í kvöld.

Simon Kjær leikur með AC Milan á Ítalíu en hann er einnig fyrirliði danska landsliðsins. Hann er ánægður með að það verði einhver áhorfendaköll annað kvöld.

„Það verður ánægjulegt að fá stuðningsmenn aftur á völlinn. Þið hafið örugglega heyrt okkur segja það svo oft. Hér er það möguleiki og það er tilhlökkun í okkur,“ sagði Simon.

„Ég man ekki síðast hvenær það voru áhorfendur á pöllunum svo við getum ekki gert annað en að taka því með opnum örmum. Okkur hlakkar til.“

Christian Eriksen tók í svipaðan streng og fyrirliðinn.

„Við sátum og töluðum um þetta í rútunni og á hótelinu. Það er bara frábært að fá stuðningsmenn aftur. Það gefur öðruvísi stemningu, hvort sem þú ert á heima- eða útivelli. Nú er maður bara glaður að það komi einhverjir áhorfendur.“

Ásamt Dönum og Ísrael eru Austurríki, Færeyjar, Moldóva og Skotland í F-riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×