Innlent

Nánast engar spennubreytingar

Birgir Olgeirsson skrifar
Eldgos í Geldingadal. 
Eldgos í Geldingadal.  Vísir/RAX

Spennubreytingar hafa ekki fylgt gosinu í Geldingadal. Gasmengunin er talsverð við gosstöðvarnar og getur fólk lagt sig í mikla hættu við að vera þar.

Staðan á gosinu í Geldingadal er mjög stöðug frá því gær og ekki miklar breytingar að sjá. Af þremur gígum er einn langvirkastur.

Hraunið hefur nú náð að þekkja botn Geldingadalsins en í gær hafði hraunflæðið ekki náð því.

Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir gosið miklu minna en gosið á Fimmvörðuhálsi. Mögulega þriðjungi eða fjórðungi minna.

Hann segir engar spennubreytingar hafa átt sér stað á svæðinu. „Það eru nánast engar landbreytingar samfara því. Það eru ekki miklar spennubreytingar samfara gosinu sjálfu, við sjáum það ekki. Öll jarðeðlisfræðileg merki, skjálftar og aflögun var orðin verulega lítil fyrir gosið og það hefur ekki orðið breyting á því eftir gosið.“

Hann segir jarðvísindamenn hafa lært mikið af aðdraganda þessa goss. Í Holuhrauni voru miklar landbreytingar þangað til gosið byrjaði. Þá hættu þær en eftir gosið mátti sjá sig í Bárðarbungu. Gosið í Geldingadal er líkt gosinu á Fimmvörðuhálsi og mögulega gosi í Kröflu.

Benedikt segir gasmengunina ekki mikla í mikilli fjarlægð gosinu. Öðru gegnir á gossvæðinu sjálfu, sérstaklega í lægð þar sem er enginn vindur.

Hann segir fólk leggja sig í talsverða hættu með því að fara nærri gosinu þar sem baneitraðar gufur koma upp. Ef vinds nýtur ekki við þá getur gasið auðveldlega safnast fyrir í miklu magni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×