Innlent

Einn svaf á skemmtistað, annar á stigagangi og sá þriðji í leigubíl

Samúel Karl Ólason skrifar
Svo virðist sem það hafi verið töluverður erill hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt.
Svo virðist sem það hafi verið töluverður erill hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu virðist hafa haft í nógu að snúast í nótt. Töluvert var af útköllum vegna ölvunar og þurftu lögregluþjónar minnst tíu sinnum að sækja samkvæmi í heimahúsum vegna hávaða.

Samkvæmt dagbók lögreglu var þar að auki mikið um ökumenn sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þó nokkrir ökumenn sem stöðvaðir voru í nótt hafa ítrekað verið stöðvaðir áður fyrir akstur undir áhrifum og voru því margir þeirra án ökuréttinda.

Skömmu eftir klukkan fimm í gær barst lögreglunni tilkynning um bílslys í Laugardalshverfi. Þar höfðu fjórir bílar skollið saman og þurfti að flytja þrjá þeirra með dráttarbíl. Enginn var sem voru í bílunum var fluttur á slysadeild til skoðunar en einn ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Sá var vistaður í fangaklefa.

Þrjár tilkynningar bárust til lögreglunnar í miðbænum vegna aðila sem sváfu ölvunarsvefni og ekki gekk að vekja. Einn var á veitingastað, annar í stigagangi fjölbýlishúss og sá þriðji í leigubíl.

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að tekist hafi að vekja þá fyrstu tvo og vísa þeim á brott. Það fylgir ekki sögunni hvernig fór með manninn sem svaf í leigubílnum.

Þá barst tilkynning um slagsmál á skemmtistað og mann sem var að skemma bíla í miðbænum. Hann fannst skammt þar frá og var handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×