Innlent

Lítið en mikilfenglegt „túristagos“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gosið er sannarlega stórkostlegt sjónarspil.
Gosið er sannarlega stórkostlegt sjónarspil. Vísir/Vilhelm

Eldgosið í Geldingadal hefur nú staðið í næstum sólahring. Þetta er lítið gos en mikilfenglegt engu að síður, segja þeir sem hafa séð það með eigin augum. Fögur gígaröð er að mótast í gosinu, sem kann að vera það fyrsta af mörgum.

Gosið hefur verið kallað „túristagos“ og margir freistað þess að leggja leið sína að hraunstreyminu. Vísindaráð Almannavarna hefur hins vegar varað fólk við að fara of nálægt og mælist til þess að fólk virði gosstöðvarnar fyrir sér af hæðunum í kringum dalinn.

Ráðið hefur meðal annars varað við því að nýjar sprungur kunna að geta opnast í nágrenninu og þá geti hröð og skyndileg framhjáhlaup orðið þar sem hrauntungurnar brjótast fram. Lífshættulegar gastegundir geti einnig safnast í dældir og orðið mönnum að bana.

Sjá: Nýjar hrauntungur geta brotist fram á miklum hraða sem erfitt er að forðast á hlaupum

Lokað er fyrir umferð að svæðinu en fólki hleypt þangað fótgangandi og eru dæmi um að það sé að leggja af stað illa undirbúið, jafnvel í gallabuxum og á strigaskóm.

Páll Einarsson, einn reynslumesti jarðeðlisfræðingur landsins, segir að gosið í Geldingadal sé til marks um að nýtt kvikuskeið sé runnið upp á Reykjanesinu. Umbrotið minni á upphaf Kröfluelda og það sé óhætt að gera ráð fyrir fleiri eldgosum á svæðinu í náinni framtíð.

„Þetta er semsagt staðfesting á því að sennilega erum við að ganga inn í nýtt kvikuskeið,“ segir Páll en Kröflueldar voru hrina eldgosa og kvikuhlaupa sem stóð yfir á árunum 1975 til 1984 en tímabilið hófst með örlitlu gosi líkt og því sem nú sést í Geldingadal.

Sjá: Eldsumbrotum á Reykjanesi eigi eftir að fjölga til muna

Hér fyrir neðan má finna hlekki á helstu upplýsingar:

Almannavarnir

Veðurstofa Íslands

Eldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×