Fótbolti

Landsliðsþjálfarinn segir að leikmenn eigi að fá bóluefni sem fyrst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Southgate þakkar danska landsliðsmanninum Christian Eriksen fyrir leikinn eftir leik Englendinga og Dana fyrir áramót.
Gareth Southgate þakkar danska landsliðsmanninum Christian Eriksen fyrir leikinn eftir leik Englendinga og Dana fyrir áramót. EPA-EFE/Toby Melville

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu, er harður á því að knattspyrnumenn eigi nú að ganga fyrir í röðinni þar sem beðið er eftir því að fá bóluefni gegn kórónuveirunni.

Nú þegar hafa 25 milljónir Breta fengið bóluefni eða næstum því helmingur íbúa. Bólusetningin er því komin vel á veg þar.

Enginn fótboltamaður hefur samt fengið bólusetningu en margir leikmenn hafa ferðast um Evrópu og víðar til að keppa í íþrótt sinni að undanförnu.

Southgate tilkynnti hópinn sinn fyrir leiki í undankeppni HM og ræddi þá skoðun sína á bólusetningum. Southgate sagði að fótboltinn beri ábyrgð á því að verja heilsu leikmanna sem eru látnir spila við þessar aðstæður í miðjum heimsfaraldri.

„Við erum komnir á þann stað að við erum að biðja íþróttafólk um að fara út í aðstæður þar sem þau eru líklegri en aðrir til að smitast og mér finnst við bera ábyrgð gagnvart þeim líka,“ sagði Gareth Southgate.

Heilbrigðisstarfsfólk og fólk sem vinnur við félagslega þjónustu var í hópi þeirra fyrstu sem fengu bólusetningu í Bretlandi en þeir sem hafa fengið boð um bólusetningu eru aðallega eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma.

„Að mínu meti þá finnst mér við vera komin nálægt þeim stað að það sé orðið ásættanlegt að íþróttafólk komist á þennan lista. Við erum að biðja þau um að halda áfram að keppa,“ sagði Southgate.

„Ég er ekki að tala um að þeir hafi átt að vera á undan lykilstarfsfólki eða kennurum en við erum að komast í þá stöðu að það ætti að vera ásættanlegt að íþróttafólki fái bóluefni. Fótboltinn gæti líka sparað heilbrigðisþjónustunni pening með því að kaupa bóluefnið og sjá um dreifingu á því líka, sagði Southgate.

„Fótboltamenn eru að taka áhættu með að koma aftur heim til fjölskyldna sinna eftir keppnisferðalög og margir þeirra hafa fengið kórónuveiruna vegna vinnu sinnar,“ sagði Gareth Southgate.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×