Fótbolti

Wenger vill taka upp handboltaleiðina í heimsfótboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger og heimsmeistarabikarinn sem Frakkinn vill að verði spilað um á tveggja ára fresti.
Arsene Wenger og heimsmeistarabikarinn sem Frakkinn vill að verði spilað um á tveggja ára fresti. EPA-EFE/Valeriano di Domenico

Einn færasti knattspyrnustjórinn á síðustu áratugum vill fjölga heimsmeistaramótum og Evrópumeistaramótum á líftíma hvers fótboltamanns.

Arsene Wenger, fyrrum knattspyrnustjóri Arsenal í 22 ár og nú yfirmaður þróunardeildar FIFA, hefur róttækar hugmyndir um hvernig eigi að breyta fótboltadagatalinu og heimsmeistaramótinu í knattspyrnu.

Wenger hefur áður rætt um breytingar á fótboltanum en þær hafa meðal snúið að útfærslu á rangstöðureglunni. Nú vill hann hins vegar stokka upp dagatalið og nota heimsmeistaramótið í Katar sem tækifæri til að breyta til.

Wenger vill meðal annars færa keppnistímabilið til þannig að það fari allt fram á sama árinu. Hann talar um góða reynslu sína frá Japan þar sem tímabilið er frá mars til nóvember.

„Þetta er minn draumur sem er kannski ekki draumur margra annarra. Ég hef það með mér að hafa unnið í Japan. Við spiluðum þar frá mars til nóvember og það var fullkomið. Þá myndi enginn vinna titilinn 2018-19. Nei meistaratitilinn myndi vinnast 2018, 2019 eða 2020. Ég tel líka að við þurfum að stokka upp allt dagatalið,“ sagði Arsene Wenger.

„Það er gott tækifæri til að raða öllu upp á nýtt nú þegar næsta heimsmeistarakeppni fer fram í nóvember. Til að koma öllu í betra jafnvægi þá þarf einhver að gefa eftir, Evrópa eða restin af heiminum. Það myndi gera hlutina einfaldari og við skulum ekki gleyma því að sumarfríin koma frá þeim tíma þegar leikmenn voru ekki atvinnumenn,“ sagði Wenger.

Handboltamenn hafa lengi kvartað mikið yfir álaginu sem fylgir því að hafa stórmót á hverju ári en þar eru HM og EM á tveggja ára fresti. HM og EM í fótbolta hafa alla tíð verið á fjögurra ára fresti en Wenger vill breyta því.

„Þegar við skoðum liðin á HM þá er meðalaldur þeirra á bilinu 27 til 28 ára. Vegna þessa, þar sem HM fer bara fram á fjögurra ára fresti, þá eru fá tækifæri fyrir leikmenn að vinna annan heimsmeistaratitil því þegar þeir koma á næsta HM þá eru þessir leikmenn orðnir 32 eða 33 ára gamlir,“ sagði Wenger.

„Þess vegna ættum við kannski að hafa HM á tveggja ára fresti og EM á tveggja ára fresti líka á móti. Svo ættum við að henda öllum öðrum mótum út,“ sagði Wenger.

Það er spurning hvort einhver handboltamaður ætti að hringja í hann og segja honum af sinni reynslu af því að keppa á stórmóti á hverju ári.

Wenger er hins vegar áhrifamikill hjá FIFA í sinni stöðu og það verður því fróðlegt hvort honum takist að tala fyrir einhverjum af fyrrnefndum breytingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×