Fótbolti

Al­freð ekki með í næsta lands­liðs­verk­efni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alfreð verður ekki með íslenska landsliðinu í fyrstu leikjunum undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar.
Alfreð verður ekki með íslenska landsliðinu í fyrstu leikjunum undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar. Vísir/Vilhelm

Alfreð Finnbogason verður ekki með íslenska landsliðinu er undankeppni HM 2022 fer af stað síðar í mánuðinum. Þetta staðfesti hann í viðtali á vef þýska knattspyrnusambandsins.

Alfreð, sem leikur með Augsburg í þýsku úrvalsdeildinni, hefur verið að glíma við meiðsli undanfarin og ekkert náð að spila með liði sínu síðan í janúar. 

Í viðtali á vef þýska knattspyrnusambandsins sagði Alfreð að hann yrði ekki með íslenska landsliðinu í komandi leikjum gegn Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM vegna meiðslanna.

Alfreð sagði einnig að hann hefði rætt við Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfara, í síðustu viku og þar hefði komið fram að hann yrði ekki í hópnum þar sem hann væri enn meiddur á kálfa.

Það er stiklað á stóru í viðtalinu. Alfreð segir að það væri óskandi að hann gæti spilað – og skorað – gegn Þýskalandi. Hann reiknar með því að spila fleiri leiki á tímabilinu. Þá voru viðureignir Íslands og Þýskalands frá því fyrir 17 árum til umræðu sem og staða íslenska landsliðsins í dag.

Alfreð Finnbogason á að baki 61 leik fyrir íslenska A-landsliðið. Hefur hann skorað 15 mörk, þar á meðal markið sem tryggði Íslandi 1-1 jafntefli gegn Argentínu á HM í Rússlandi sumarið 2018.

Viðtalið má finna í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×