Fótbolti

Zi­da­ne um Ron­aldo: „Kannski“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Zinedine Zidane og Cristiano Ronaldo fagna Evrópumeistaratitlinum með Real Madrid eftir sigurinn á Liverpool.
Zinedine Zidane og Cristiano Ronaldo fagna Evrópumeistaratitlinum með Real Madrid eftir sigurinn á Liverpool. Matthew Ashton/Getty

Fjölmiðlar halda áfram að fjalla um framtíð Cristiano Ronaldo en hann er orðaður burt frá Juventus eftir vonbrigði þeirra í Meistaradeildinni.

Ronaldo og félagar í Juventus duttu út gegn Porto í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en það voru mikil vonbrigði fyrir ítölsku meistarana.

Eftir þau vonbrigði hefur verið mikið fjallað um framtíð hins sigursæla Cristiano Ronaldo en samningur hans rennur út sumarið 2022.

Ronaldo gerði garðinn frægan hjá Real Madrid og hann hefur verið orðaður við endurkomu til Spánar.

Zinedine Zidane, stjóri Real, var spurður út í sinn fyrrum lærisvein á blaðamannafundi í dag og svaraði:

„Kannski. Við þekkjum Cristiano og hvernig persóna hann er og hvað hann gerði hérna en hann er leikmaður Juventus,“ sagði Zidane.

„Við verðum að sjá hvað gerist í framtíðinni. Ég var svo heppinn að þjálfa hann því hann er afar áhrifamikill,“ bætti Zidane við í samtali við Sky Sports.

Real Madrid mætir Atalanta í síðari leik sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld en Real leiðir 1-0 eftir fyrri leikinn á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×