Fótbolti

Pele óskaði Cristiano Ronaldo til hamingju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fær hér verðlaun afhent frá Pele þegar Ronaldo var kosinn besti fótboltamaður heims fyrir árið 2008.
Cristiano Ronaldo fær hér verðlaun afhent frá Pele þegar Ronaldo var kosinn besti fótboltamaður heims fyrir árið 2008. EPA/STEFFEN SCHMIDT

Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Pele hefur sent Portúgalanum Cristiano Ronaldo hamingjuóskir nú þegar CR7 hefur „endanlega“ bætt markamet Pele.

Cristiano Ronaldo skoraði þrennu í 3-1 sigri Juventus á Cagliari í gær og er þar með kominn með 770 mörk á ferlinum. Pele skoraði 767 mörk á sínum tíma og er Ronaldo nú kominn fram úr honum sem og Josef Bican.

Menn hafa verið að telja og ekki telja hin ýmsu mörk frá bæði ferli Pele og ferli Bican en nú virðast allir hafa sætt sig við hvaða tölur gilda.

Áður hafði nefnilega verið greint frá því að Ronaldo væri kominn fram úr Pele í fjölda marka á ferlinum en menn í herbúðum Pele sögðu hann þó hafa skorað miklu fleiri mörk. Inn í þetta hefur blandast umræðan um opinber mörk og öll mörk en Pele telur sig hafa skorað meira en þúsund mörk á ferli sínum.

Cristiano Ronaldo fagnaði tímamótunum þó ekki fyrr en í gær og útskýrði það nánar í færslu á samfélagsmiðlum sínum.

„Undanfarnar vikur hafa verið skrifaðar fréttir um að ég sé orðinn markahæsti leikmaður fótboltasögunnar og að ég sé kominn með meira en þessi 757 opinberu mörk hjá Pele. Ég var auðvitað þakklátur fyrir viðurkenninguna en ég vil útskýra af hverju ég fagnaði ekki þessu meti fyrr en nú,“ skrifaði Cristiano Ronaldo.

„Ég hef endalausa og skilyrðislausa aðdáun á herra Edson Arantes do Nascimento [Pele] og vegna þeirra virðingar sem ég ber fyrir fótboltanum á miðri tuttugustu öldinni þá tók ég alltaf með þessi níu mörk sem hann skoraði fyrir Sao Paulo fylkisliðið sem og markið sem hann skoraði fyrir lið brasilíska hersins. Heimurinn hefur breyst síðan þá og fótboltinn líka en það þýðir ekki að við getum eytt sögunni eins og okkur hentar,“ skrifaði Cristiano Ronaldo.

„Í dag skoraði ég mitt 770. opinbera mark á ferlinum og ég vildi byrja á því að tala um Pele. Það enginn leikmaður í heiminum sem hefur ekki hlustað á sögur af afrekum hans af áhuga. Ég er engin undantekning á því. Ég er því fullur af ánægju og stolti að hafa náð að slá met Pele. Það er eitthvað sem ég hafði aldrei getað látið mig dreyma um þegar ég var lítill strákur á Madeira,“ skrifaði Ronaldo.

Pele svaraði útspili Cristiano með því að óska honum til hamingju.

„Lífið er barátta og hver og einn fer í sitt ferðalag. Hversu fallegt er þetta ferðalag þitt. Ég dáist að þér og elska að horfa á þig spila. Það er ekkert leyndarmál. Til hamingju með að bæta metið mitt yfir mörk í opinberum leikjum,“ skrifaði Pele á sinn Instagram reikning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×