Færa­veisla í Búda­pest og Liver­pool á­fram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Salah skoraði eitt og hefði getað skorað fleiri í kvöld.
Salah skoraði eitt og hefði getað skorað fleiri í kvöld. David Balogh/Getty Images

Það vantaði ekki færin í síðari leik Leipzig og Liverpool í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Liverpool vann leikinn 2-0 og eru því komnir áfram í átta liða úrslitin, samanlagt 4-0.

Liverpool vann fyrri leik liðanna 2-0. Ensku meistararnir refsuðu þá þeim þýsku all hressilega fyrir þeirra mistök.

Fyrri leikurinn fór fram í Búdapest - líkt og sá síðari í kvöld, vegna ferðatakmarkanna í Englandi og Þýskalandi.

Leipzig byrjaði af ágætis krafti og Daniel Olmo átti ágætis skot sem Alisson varði. Eftir það átti Liverpool hvert færið á eftir öðru.

Diego Jota, Mohamed Salah og Sadio Mane fengu allir tækifæri til að skora og Jota meðal annars tvö góð færi en markalaust í hálfleik.

Það róaðist aðeins í síðari hálfleik ef litið er á fjölda dauðafæra. Leipzig reyndi og reyndi að minnka muninn en Alexander Sörloth skallaði meðal annars í slá á 65. mínútu.

Það var svo á 71. mínútu sem fyrsta markið kom. Eftir flotta sókn Liverpool gaf Sadio Mane góða sendingu inn fyrir vörn Leipzig og Mo Salah skoraði. Loksins, loksins komu ensku meistararnir boltanum í netið.

Einungis þremur mínútum síðar tvöfölduðu Liverpool forystuna. Divock Origi gaf þá frábæra fyrirgjöf fyrir markið þar sem Sadio Mane kom askvaðandi og skilaði boltanum í netið.

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 2-0, samanlagt 4-0. Liverpool á því enn möguleika á því að vinna annan Evrópumeistaratitilinn á þremur árum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira