Fótbolti

Sara Björk meðal tuttugu bestu leik­manna ársins 2020 að mati virts knatt­spyrnu­tíma­rits

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Árið 2020 var eitt besta ár Söru Bjarkar Gunnarsdóttur á ferlinum.
Árið 2020 var eitt besta ár Söru Bjarkar Gunnarsdóttur á ferlinum. Alejandro Rios/Getty Images

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir var meðal þeirra sem knattspyrnutímaritið FourFourTwo taldi tuttugu bestu knattspyrnukonur ársins 2020.

Alls hafði FourFourTwo samband við 27 íþróttablaðamenn víðs vegar um heim allan til að setja saman lista yfir tuttugu bestu knattspyrnukonur í heimi. Aðeins var haft samband við einn blaðamann frá hverju landi.

Var listinn svo birtur í nýjasta tölublaði tímaritsins. Þar var Sara Björk jöfn Denise O‘Sullivan frá Írlandi í 15. og 16. sæti listans.

„Ísland er ekki beint meðal þeirra þjóða sem við taldar eru bestar í heimi en (Sara Björk) Gunnarsdóttir hefur nú spilað með tveimur af stærstu liðum Evrópu. Hún skoraði í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á síðasta ári og hjálpaði Lyon að landa sigri á fyrrum samherjum hennar í Wolfsburg,“ segir í umfjöllun FourFourTwo um Söru Björk.

„Gunnarsdóttir er með einstakan hæfileika til að finna pláss á miðju vallarins. Hreyfing hennar sem og hæfileiki til að taka við boltanum á þröngu svæði er til fyrirmyndar og sýnir hversu yfirveguð hin 30 ára gamla knattspyrnukona er,“ segir einnig í umfjölluninni.

Líkt og á lista The Guardian yfir 100 bestu knattspyrnukonur í heimi var það hin danska Pernille Harder sem var kosin besti leikmaður heims árið 2020. Harder er dýrasti leikmaður í sögu kvennaknattspyrnu en Chelsea festi kaup á leikmanninum í sumar. 

Þar áður lék hún með Söru Björk hjá Wolfsburg og náðu þær einkar vel saman.

Hér má sjá lista FourFourTwo í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×