Fótbolti

Luis Suarez með enn betri byrjun en Cristiano Ronaldo og nútímamet

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez fagnar hér öðru marka sinna fyrir Atletico Madrid á móti Celta Vigo í gærkvöldi.
Luis Suarez fagnar hér öðru marka sinna fyrir Atletico Madrid á móti Celta Vigo í gærkvöldi. AP/Jose Breton

Luis Suarez hefur heldur betur sýnt fram á það að það voru mikil mistök hjá Barcelona að losa sig við hann í sumar.

Luis Suarez bætti met Cristiano Ronaldo í gærkvöldi þegar hann skoraði tvívegis fyrir Atletico Madrid í 2-2 jafntefli við Celta Vigo.

Enginn annar leikmaður hefur byrjað betur hjá félagi í spænsku deildinni á þessari öld.

Suarez er með sextán mörk í fyrstu sautján leikjum sínum með Atletico Madrid en besti árangurinn á 21. öldinni voru 15 mörk Cristiano Ronaldo í fyrstu sautján leikjum sínum með Real Madrid tímabilið 2009-10.

Suarez er nú með þriggja marka forskot á listanum yfir markahæstu leikmenn spænsku deildarinnar.

Suarez er orðinn 34 ára gamall og Ronaldo Koeman afskrifaði hann þegar hann tók við sem þjálfari Barcelona í sumar. Lionel Messi var einn af þeim sem var mjög ósáttur með þá ákvörðun.

Atletico Madrid steig fram og samdi við Suarez sem hefur verið frábær á tímabilinu. Luis Suarez hefur hjálpað Atletico liðinu að ná átta stiga forystu á toppi spænsku deildarinnar og er á góðri leið með að verða spænskur meistari með nýja liðinu sínu.

Luis Suarez spilaði með Barcelona frá 2014 til 2020 og skoraði 147 mörk í 191 deildarleik. Hann var með 16 mörk í 38 deildarleikjum á síðasta tímabili sínu með liðinu.

Suarez vann spænsku deildina fjórum sinnum og Meistaradeildina einu sinni sem leikmaður Barcelona.


Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×