Fótbolti

Rúnar til Rúmeníu og Axel til Lett­lands

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar Már í baráttunni við Phil Foden á Laugardalsvelli.
Rúnar Már í baráttunni við Phil Foden á Laugardalsvelli. Carl Recine/Getty

Tveir íslenskir knattspyrnumenn skiptu um félög í dag. Rúnar Már Sigurjónsson er genginn í raðir CFR Cluj og Axel Óskar Andrésson samdi við Riga.

Rúnar Már fékk samningi sínum við Astana rift í dag en hann hefur leikið með liðinu frá því í júní árið 2019.

Þar áður hafði hann leikið með Grasshopper, Sundsvall og Zwolle eftir að hafa leikið með Val, HK og Tindastól á Íslandi.

Rúnar hefur verið fastamaður í íslenska landsliðshópnum undanfarin ár en hann á að baki þrjátíu landsleiki.

Cluj er ríkjandi meistari í Rúmeníu og hefur áður gert sig gildandi í Meistaradeild Evrópu.

Axel Óskar Andrésson er farinn frá Viking í Noregi til Riga FC í Lettlandi.

Axel lék með yngri liðum Reading og liðum í neðri deildum Englands áður en hann færði sig yfir til Noregs árið 2018.

Riga kaupir Axel frá Víking en lettneska liðið hefur unnið deildina þar í landi síðustu þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×