Fótbolti

Evrópumeistararnir þurftu að eyða nóttinni úti í flugvél

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Lewandowski og félagar í Bayern liðinu áttu ekki skemmtilega nótt á Berlínarflugvelli.
Robert Lewandowski og félagar í Bayern liðinu áttu ekki skemmtilega nótt á Berlínarflugvelli. EPA-EFE/Boris Streubel

Evrópumeistarar Bayern München áttu að ferðast til Katar á föstudagskvöldið þar sem liðið keppir á heimsmeistarakeppni félagsliða í vikunni. Ferðalagið fór ekki alveg eftir plönum þeirra þýsku.

Bayern München er fulltrúi Evrópu í heimsmeistarakeppni félagsliða og mætir egypska félaginu Al-Ahly í undanúrslitunum í kvöld.

Bayern mætti Herthu Berlin í þýsku deildinni á föstudagskvöldið og ætlaði síðan að fljúga beint til Katar þar sem HM félagsliða fer fram. Leiknum við Herthu var meðal annars flýtt um hálftíma svo að Bæjarar kæmust nógu snemma út á Berlínarflugvöll.

Flugvélin átti að fara í loftið klukkan 23.15 að staðartíma en slæmt veður, frost og snjókoma, sá til þess að öllu flugi var aflýst þar til klukkan fimm um morguninn.

Það átti að banna öllum flugvélum að fara í loftið eftir miðnætti en flugvél Bæjara ætlaði í loftið klukkan 23.59. Hún var hins vegar stöðvuð. ESPN sagði frá.

Leikmenn og starfsmenn Bayern komust þá hvergi og þurftu að dúsa í flugvélinni alla nóttina. Flugvélin flaug síðan fyrst til München um morguninn þar sem það þurfti að skipta um áhöfnina áður en flogið var til Katar.

Lið Bayern átti því ömurlega nótt og kom til Katar níu klukkutímum seinna en áætlað var.

„Þeir vita ekki hvað þeir hafa gert liðinu okkar. Okkur finnst eins og yfirvöld í Brandenburg hafi verið að fíflast með okkur,“ sagði Karl-Heinz Rummenigge, framkvæmdastjóri Bayern München, við Bild

Seinkunin þýddi að Bæjarar náðu ekki að koma á staðinn þremur sólarhringum fyrir leikinn eins og sóttvarnarreglur FIFA segja til um. Það er þó von til þess að það verði vægar tekið á Bæjurum hjá FIFA en hjá yfirvöldum í Berlín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×