Slæmt gengi Arsenal heldur á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ollie Watkins skorar hér eina mark leiksins.
Ollie Watkins skorar hér eina mark leiksins. Neville Williams/Getty Images

Aston Villa lagði Arsenal 1-0 í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Arsenal hefur nú leikið þrjá leiki í röð án sigurs á meðan Villa hefur nú unnið þrjá af síðustu fimm.

Heimamenn gátu vart byrjað leikinn betur en Ollie Watkins kom þeim yfir þegar rétt rúmlega mínúta var liðin af leiknum. Það fyrsta sem Mat Ryan, markvörður Arsenal í dag, fékk að gera fyrir sitt nýja félag var því að sækja knöttinn úr netinu.

Staðan því orðin 1-0 snemma leiks. Granit Xhaka komst næst því að jafna metin fyrir Arsenal í fyrri hálfleik en Emi Martinez, fyrrum markvörður Arsenal, varði frábæra aukaspyrnu Xhaka alveg upp í samskeytunum.

Staðan 1-0 í hálfleik og í þeim síðari setti Mikel Arteta – þjálfari Arsenal – þá Pierre-Emeric Aubameyang, Martin Ødegaard og Willian inn á til að bjarga málunum. Norðmaðurinn Ødegaard fékk þeirra besta færi en skot hans fór yfir. 

Þá vildu Arsenal-menn fá vítaspyrnu er Martinez virtist halda í Alexandre Lacazette er gestirnir áttu hornspyrnu. 

Allt kom þó fyrir ekki og Villa fór með 1-0 sigur af hólmi þökk sé markinu í upphafi leiks. Villa er nú komið upp í 8. sæti með 35 stig eftir 21 leik. Arsenal er í 10. sæti með 31 stig eftir 23 leiki.

Til að bæta gráu ofan á svart fór Thomas Partey meiddur af velli í liði Arsenal í síðari hálfleik. Partey hefur ekki náð sér á strik á tímabilinu enda verið mikið frá vegna meiðsla.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira