Erlent

Fimm saknað eftir bruna í sumar­bú­stað

Sylvía Hall skrifar
Lögreglu barst tilkynning á fimmta tímanum í nótt.
Lögreglu barst tilkynning á fimmta tímanum í nótt. Getty

Fimm er saknað eftir að bústaður brann til grunna í þorpinu Risøyhamn á eyjunni Andøy í Noregi í nótt. Lögreglu barst tilkynning klukkan 04:30 að staðartíma eftir einn úr bústaðnum náði að láta nágranna vita.

Sex dvöldu í bústaðnum þegar eldurinn kom upp samkvæmt frétt VG. Einn náði að komast út úr brennandi húsinu og var hann fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar, en hinna fimm er enn saknað.

„Hann komst út á náttfötunum. Þegar hann komst út reyndi hann að komast aftur inn en það var ómögulegt,“ segir Ivar Bo Nilsson, aðgerðastjóri hjá umdæmislögreglunni, Lélegt símasamband hafi verið á svæðinu og því hafi sá sem komst út þurft að hlaupa nokkra kílómetra til að láta vita.

Hann segir aðstæður við bústaðinn erfiðar þar sem enn sé of snemmt að fara að brunasvæðinu. Það þurfi að fá að kólna fyrst, en slökkvilið og lögregla vakta nú vettvang. Eldsupptök liggja ekki fyrir.

Leit er hafin að þeim fimm sem saknað er nærri bústaðnum og hefur ættingjum þeirra verið boðin áfallahjálp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×