Erlent

Stærstu mafíuréttarhöldin í áratugi hafin

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Réttarhöldin eru afar umfangsmikil og fara fram í bænum Lamezia Terme.
Réttarhöldin eru afar umfangsmikil og fara fram í bænum Lamezia Terme. AP/Valeria Ferraro

Stærstu mafíuréttarhöld í áratugaraðir hófust á Ítalíu í morgun. 355 meintir mafíósar og spilltir embættismenn eru sakaðir um skipulagða glæpastarfsemi.

Málið snýst um 'Ndrangheta-mafíuna, þá valdamestu á Ítalíu, sem á höfuðstöðvar í Calabria-héraði og er talin ráðandi í kókaínverslun á meginlandinu. Hin ákærðu eru sökuð um meðal annars fjárkúgun, eiturlyfjasmygl, morð og stórfelldan þjófnað.

Vegna umfangs réttarhaldanna fara þau ekki fram í hefðbundnum réttarsal heldur í breyttu úthringiveri í bænum Lamezia Terme. Samkvæmt CNN eru sakborningar settir í málmbúr og hundruðum skrifborða hefur verið komið upp fyrir álíka marga lögfræðinga og blaðamenn.

Þetta eru stærstu mafíuréttarhöldin á Ítalíu frá því á níunda áratugnum og beindust þau gegn allnokkrum hópum á Sikiley. Réttarhöldin nú snúast einungis um Mancuso-fjölskylduna, eina þá valdamestu innan 'Ndrangheta-mafíunnar.

Til marks um það hversu stór réttarhöldin nú eru tók það þrjár klukkustundir að lesa upp nöfn allra verjenda. Í hópnum eru stjórnmálamenn, lögreglumenn, embættismenn og meintir meðlimir og samverkamenn mafíunnar.

Þekktustu sakborningarnir eru sagðir Luigi Mancuso, höfuðpaur fjölskyldunnar, og Giancarlo Pittelli, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður Forza Italia.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×