Erlent

Suður-kóreskt olíuflutningaskip í haldi Írana

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Á myndinni má sjá suður-kóreska tankskipið á leið til hafnar í fylgd íranskra hermanna .
Á myndinni má sjá suður-kóreska tankskipið á leið til hafnar í fylgd íranskra hermanna . Íranski Byltingarvörðurinn/Getty

Íranir hafa hertekið olíuflutningaskip frá Suður-Kóreu í grennd við Hormus sund og hafa nú tuttugu skipverja í haldi. Íran segir að skipið hafi gerst brotlegt við umhverfisreglur.

Í frétt breska ríkisútvarpsins er atvikið sett í samhengi við að á dögunum frystu suður kóreskir bankar innistæður Írana vegna viðskiptaþvingana Bandaríkjamanna.

Háttsettur erindreki frá Suður-Kóreu var væntanlegur til Írans til að ræða þau mál en óvíst er hvort af ferðinni verði nú þegar olíuskipið hefur verið hertekið. Áhöfn skipsins er frá fjórum þjóðlöndum, Suður-Kóreu, Víetnam, Myanmar og Indónesíu.

Íranir halda því fram að mikilli mengun hafi stafað frá skipinu en því hafna Suður-Kóreumenn. Þetta er í fyrsta sinn í rúmt ár sem Íranir beita hervaldi sínu á svæðinu og hertaka skip á sundinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×