Erlent

Sam­þykktu neyðar­að­gerðir upp á 900 milljarða Banda­ríkja­dala

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er tekin í Brooklyn í New York fyrr á árinu í röð þar sem fólk bíður eftir að fá mataraðstoð.
Myndin er tekin í Brooklyn í New York fyrr á árinu í röð þar sem fólk bíður eftir að fá mataraðstoð. Getty/Andrew Lichtenstei

Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt neyðaraðgerðir upp á 900 milljarða Bandaríkjadala til að styðja við efnahag landsins í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Öldungadeildin samþykkti aðgerðapakkann seint í gær, nokkrum klukkustundum eftir að fulltrúadeildin hafði afgreitt pakkann.

Að því er segir í frétt BBC höfðu aðgerðirnar verið pólitískt þrætuepli um mánaða skeið en nú voru þær loks samþykktar með miklum meirihluta atkvæða. Þá er búist við því að Donald Trump, Bandríkjaforseti, skrifi undir þær fljótlega svo þær verði að lögum.

Á meðal aðgerða sem gripið er til eru beinar stuðningsgreiðslur til bandarískra fjölskyldna auk stuðnings við fyrirtæki og verkefni sem ætlað er að takast á við atvinnuleysi í landinu en atvinnuleysi mælist 6,7 prósent í Bandaríkjunum.

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, fagnaði því á Twitter að neyðarpakkinn hefði farið í gegnum þingið. Hann sagði þó að vinnunni væri hvergi nærri lokið og að á nýju ári byði þingsins ný áætlun vegna Covid-19.

„Skilaboð mín til þeirra sem eiga erfitt nú eru þessi: aðstoðin er á leiðinni,“ sagði Biden.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×