Innlent

Ljósa­flökt í Vestur­bænum: „Drauga­gangur, er ein­hver góður særingar­maður í Vestur­bænum?“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Götuljósin flöktu í gríð og erg í Vesturbænum fyrr í kvöld.
Götuljósin flöktu í gríð og erg í Vesturbænum fyrr í kvöld. Vísir

Vesturbæingar urðu varir við undarlegt ljósaflökt fyrr í kvöld. Flest ljós í ljósastaurum Gamla Vesturbæjar flöktu í gríð og erg og furðuðu sig margir á þessu atviki á Facebook-síðunni Vesturbærinn.

Einhverjir lýstu ljósaflöktinu við diskópartý og aðrir veltu upp spurningunni hvort um draugagang væri að ræða.

„Draugagangur. Er einhver góður særingarmaður í vesturbænum?“ skrifar Vesturbæingur í athugasemd við myndbandsfærslu sem sett var inn á Vesturbæjarhópinn.

„Vegna þess að þetta er í gömlu hverfi er um að ræða 220 Volta kerfi. Einn fasi af þremur fór út og þá fer spennan of langt niður fyrir LED-ljósin sem eru í ljósastaurunum og þá gerðist þetta,“ segir Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi Veitna, í samtali við fréttastofu.

Hún segist aldrei hafa séð svona áður og viti ekki til þess að þetta hafi gerst fyrr.

„Þetta er alls ekki reglulegur viðburður,“ segir Ólöf.

Þórhallur Bjarni Björnsson, íbúi í Vesturbæ, náði ljósaflöktinu á myndband sem vert er að horfa á. 

Aðspurð segir Ólöf að sér þyki myndbandið alveg ótrúlega flott. 

„Mér finnst þetta ótrúlega flott vídeó, ég verð bara að segja það,“ segir Ólöf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×