Fótbolti

Arnar Þór: Ætlum að reyna ná í stig og fara áfram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnar Þór á hliðarlínunni.
Arnar Þór á hliðarlínunni. vísir/bára

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska U21 árs landsliðsins, segir að íslenska liðið stefni ekki á að vera bara með í úrslitakeppni EM heldur ætli liðið sér einhverja hluti.

Íslenska U21-árs landsliðið í knattspyrnu dróst í dag í riðil með Frakklandi, Danmörku og Rússlandi í riðlakeppni EM U21 sem fer fram í Ungverjalandi á næsta ári.

„Frakkarnir eru frábærir og Danirnir eru það líka. Rússarnir eru með aðeins fleiri íbúa en við Íslendingar svo þetta verður stórt verkefni en þetta verður erfitt verkefni,“ sagði Arnar Þór.

„Við förum inn í riðilinn með það markmið að stríða hinum liðunum. Auðvitað viljum við fara áfram. Við settum okkar það markmið fyrir undankeppnina að fara á lokakeppnina. Sem þjálfari og leikmaður fer maður ekki inn í svona riðil með þann hugsunarhátt að vera bara með. Við erum ekki þar. Við ætlum að ná í stig og reyna fara áfram en það er stærra markmiðið að halda áfram að þróa leikmenn.“

Arnar benti á hvað gerðist eftir EM 2011 er leikmenn eins og Birkir Bjarnason og Gylfi Þór Sigurðsson fóru með íslenska U21 árs landsliðinu á EM.

„Við sáum árið 2011 hvað þetta getur verið mikilvægt fyrir framtíðina. Strákarnir eiga mikið hrós skilið fyrir að hafa búið til þennan vettvang, þennan stökkpall fyrir sjálfan sig, til þess að taka næsta skref á sínum ferli. Bæði sem lið fyrir Ísland og fyrir sjálfan sig sem einstakling. Markmiðið er að sjálfsögðu að fara áfram en við erum með önnur markmið og þeir eru meira framtíðar.“

Leikur Ísland þróaðist mikið í riðlakeppninni og undir lokin var liðið að ná í úrslit sem það hefði kannski ekki gert í upphafi riðilsins.

„Bæði ég og Eiður höfum rætt mikið er að eftir fyrsta árið 2019 þá áttum við góða kafla í leikjum en gátum ekki klárað á því. Til að mynda úti á Ítalíu. Spiluðum vel en töpuðum 3-0. Núna síðasta haust þá vorum við orðnir meira þroskaðir og sáum það gegn Ítalíu hérna heima. Við erum að spila á móti liði þar sem eru margir frábærir leikmenn. Þeir eru aldir upp við það að vinna. Strákarnir okkar og liðið var komið á þann stað að þeir höndluðu þetta alveg. Það er mikilvægt að hafa þennan stíganda í þessu eins og þú segir.“

Guðjón Guðmundsson, Gaupi, kom inn á það að undanfarin ár hafi vantað hraða og styrk.

„Sá fljótasti undanfarin ár kemur frá Jamaíka. Við eigum einn sem er að hluta til frá Jamaíka og það er Mikael Anderson. Hann er öskufljótur en þetta er ekki í okkar DNA. Við þurfum að spila út frá okkar styrkleikum og nota okkar styrki, sama í hvaða íþrótt það er. Við gerum þetta mjög vel frá liðsheildinni og frá því sem við erum góðir í.“

Klippa: Sportpakkinn - Arnar um U21 riðilinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×