Fótbolti

Gunnhildur Yrsa nú „í eigu“ liðs í Kansas City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er orðinn leikmaður Kansas City eftir að Utah Royals seldi allt sitt þar á meðal leikmannasamningana.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er orðinn leikmaður Kansas City eftir að Utah Royals seldi allt sitt þar á meðal leikmannasamningana. Vísir/Vilhelm

Íslandsvinurinn Brittany Matthews á hlut í fótboltafélagi sem hefur eignast leikmannasamninga Utah Royals liðsins í bandarísku kvennadeildinni í fótbolta.

Kansas City, sem er nýtt lið í NWSL-deildinni, tók í gær yfir alla leikmannasamninga Utah Royals. Meðal þeirra er samningur íslensku landsliðskonunnar Gunnhildur Yrsu Jónsdóttur.

Gunnhildur Yrsa hefur verið leikmaður Utah Royals FC frá 2018 en hún var lánuð til Vals í Pepsi Max deild kvenna í sumar.

Brittany Matthews er einn af eigendum nýja knattspyrnuliðs Kansas City sem tóku yfir leikmannasamninga Utah Royals. Matthews er líkamsræktarfrömuður og  kærasta NFL-súperstjörnunnar Patrick Mahomes,

Utah Royals var undir Utah Soccer eignarfélaginu sem á einnig karlaliðið Real Salt Lake. Eftir að rannsókn fór í gang á kynferðislegu áreiti og kynjamismunun innan Utah Royals þá ákváðu eigendurnir að selja félagið og eignir þess.

Gunnhildur Yrsa hefur því verið „send“ til Kansas City og spilar að öllum líkindum með því liði á næstu leiktíð.

Það er hefð fyrir kvennafótbolta í Kansas City því FC Kansas City vann tvo meistaratitla í röð, 2014 og 2015, áður en það selt til Minnesota.

Brittany Matthews spilaði háskólafótbolta með University of Texas-Tyler og þá lék hún einnig eitt tímabil með Aftureldingu á Íslandi. Matthews er nú ófrísk af fyrsta barni hennar og Patrick Mahomes.

Patrick Mahomes er leiksjórnandi NFL-meistara Kansas City Chiefs og var valinn besti leikmaður deildarinnar 2018-tímabilið. Hann gerði nýverið langan risasamning við félagið. Mahomes er af flestum talinn vera besti leikmaður NFL-deildarinnar í dag og lið hans er líklegt til að verja titilinn í NFL-deildinni í ár.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Mahomes eða kærasta hans kaupa sig inn í íþróttafélag því hann hefur einnig eignast hlut í hafnaboltafélaginu Kansas City Royals sem spila í MLB-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×