Fótbolti

Fyrrum að­stoðar­maður Sir Alex fékk sparkið eftir niður­lægingu gegn Ekvador

Anton Ingi Leifsson skrifar
Queiros klórar sér í hausnum eftir tapið gegn Ekvador.
Queiros klórar sér í hausnum eftir tapið gegn Ekvador. Rodrigo Buendia-Pool/Getty Images

Kólumbía hefur rekið Carlos Queiroz úr starfi sínu sem landsliðsþjálfari. Brottreksturinn kemur eftir 6-1 tap gegn Ekvador.

Queiroz var í tvígang aðstoðarþjálfari Sir Alex Ferguson hjá Manchester United en Kólumbía tapaði tveimur leikjum í undankeppni HM í síðasta glugga.

Fyrst töpuðu þeir 3-0 fyrir Úrúgvæ áður en þeir skömmu síðar voru niðurlægðir af Ekvador. Lokatölur urðu 6-1 og það fyllti mælinn hjá forráðamönnum kólumbíska sambandsins.

Hinn 67 ára gamli Queiroz, sem hefur einnig stýrt Real Madrid og Portúgal, tók yfir í febrúar á síðasta ári. Hann stýrði liðinu í átta liða úrslit Copa America þar sem liðið datt úr leik gegn Síle.

Það hefu ekki bara verið vesen innan vallar því sögur hafa verið af því að James Rodriguez, samherji Gylfa Sigurðssonar hjá Everton, og Jefferson Lerma hafi lent í áflogum í búningsklefanum eftir tapið gegn Úrúgvæ.

Það verður erfitt fyrir Kólumbíu að komast á HM 2022 í Katar. Efstu fjögur lið riðilsins fara beint á HM og fimmta sætið fer í umspil. Kólumbía er sem stendur í 7. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×