Viðskipti innlent

Ferða­skrif­stofa Ís­lands vill kaupa rekstur Heims­ferða

Sylvía Hall skrifar
Þórunn Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Íslands.
Þórunn Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Íslands. Vísir/Einar

Viljayfirlýsing hefur verið undirrituð um kaup Ferðaskrifstofu Íslands á rekstri ferðaskrifstofunnar Heimsferða. Stefnt er að því að klára kaupsamning í næstu viku.

Kaupverðið verður greitt með hlutum í Ferðaskrifstofu Íslands samkvæmt tilkynningu frá Heimsferðum. Kaupin verða gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og verða ferðaskrifstofurnar reknar sem sérstakar einingar innan Ferðaskrifstofu Íslands ef þau ganga eftir.

Sameiningunni er ætlað að ná fram hagræðingu í rekstri fyrirtækjanna í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Með þessu verði vonandi hægt að gera fyrirtækjunum kleift að hefja starfsemi aftur eins fljótt og auðið er.

Markmiðið sé að bjóða landsmönnum upp á víðtæka þjónustu og spennandi áfangastaði.

„Ferðaskrifstofa Íslands, undir vörumerkjum Úrval/Útsýn, Sumarferða og Plúsferða, og Heimsferðir hafa um langt skeið verið leiðandi ferðaskrifstofur á Íslandi. Félögin hafa sérhæft sig í ferðum Íslendinga á sólarstrendur, auk borgarferða, golfferða, íþróttaferða og ýmissa annarra sérferða,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×