Innlent

Þörfin fyrir mataraðstoð sjaldan verið eins mikil

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar, segir þörfina fyrir mataraðstoð sjaldan hafa verið meiri. Fólk sé bæði sorgmætt og áhyggjufullt í kórónuveirufaraldrinum. Hátt í átta hundruð heimili hafa sótt um matarúthlutun í nóvember.

Ríflega tvö þúsund manns fá matarúthlutun frá Fjölskylduhjálp nú í nóvember en um er að ræða matargjafir frá Kaupfélagi Skagfirðinga. Sautján matarúthlutanir verða fram að jólum.

„Þetta fer að nálgast átta hundruð fjölskyldur,” segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands. Hún bendir á að margir hafi þurft að horfa á eftir lífsviðurværi sínu undanfarna mánuði og því sé þörfin mikil.

Jón Elíasson kertagerðarmeistari leggur mikinn metnað í kertagerðina. Um er að ræða svokölluð tólgarkerti. Vísir/Sigurjón Ólason

„Þetta er fólk sem er bara ekki með neitt umfram í dag og á ekki fyrir mat,” segir hún. „Fólk er áhyggjufullt og sorgmætt og í raun og veru veit ekki sitt rjúkandi ráð.”

Hún segir að hver fjölskylda fái fjóra poka sem innihalda meðal annars brauð, mjólk, ost, skyr, kjöt, fisk og margt fleira. Þá standa samtökin fyrir sölu á svokölluðum kærleikskertum, tólgarkertum sem unnin eru úr mör. Hvert kerti er handgert af Jóni Elíassyni en hann hefur staðið kertavaktina í sjö ár og gerir hátt í þrjú hundruð kerti á dag.

„Ég nota bara mörinn. Ég hakka hann niður í hakkavél og bræði á eldavélinni, svo eru hamsarnir sigtaðir frá og þetta bara látið leka,” segir kertagerðarmeistarinn í samtali við fréttastofu. Hvert kerti kostar 650 krónur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×