Innlent

Kjartan Jóhanns­son er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Kjartan Jóhannsson starfaði á ferli sínum meðal annars sem þingmaður, ráðherra og sendiherra.
Kjartan Jóhannsson starfaði á ferli sínum meðal annars sem þingmaður, ráðherra og sendiherra. Stjórnarráð Íslands

Kjartan Jóhannsson, fyrrverandi þingmaður, ráðherra, formaður Alþýðuflokksins og sendiherra, er látinn, áttræður að aldri. Í Morgunblaðinu segir að Kjartan hafi andast á heimili sínu síðastliðinn föstudag.

Kjartan var menntaður í rekstrarhagfræði frá Stokkhólmsháskóla og lauk MS-prófi í rekstrarverkfræði og síðar doktorsprófi frá Illinois Institute of Technology í Chicago árið 1969. 

Hann var þingmaður Reyknesinga fyrir Alþýðuflokkinn á árunum 1978 til 1989 og sjávarútvegsráðherra á árunum 1978 til 1979 og sjávarútvegs- og viðskiptaráðherra á árunum 1979 til 1980. Þá var hann forseti neðri deildar þingsins 1988 til 1989. 

Kjartan var skipaður sendiherra árið 1989 – stöðu sem hann gegndi allt til ársins 2006. Hann var sendiherra í Brussel 2002 til 2005, starfaði í ráðuneytinu 2000 til 2002, var aðalframkvæmdastjóri EFTA á árunum 1994 til 2000 og sendiherra og fastafulltrúi í Genf 1989 til 1994.

Á vef Alþingis kemur fram að Kjartan hafi skrifað bækur, bókarkafla og greinar sem birst hafi í tímaritum og blöðum um verkfræði, skipulagsmál, heilbrigðismál, alþjóðamál og þjóðmál.

Kjartan lætur eftir sig eiginkonu, Irmu Karlsdóttur bankafulltrúa, og dótturina Maríu Evu Kristínu, viðskiptafræðing og hagfræðing sem búsett er í Bandaríkjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×