Íslenski boltinn

Bjarni segir að KR hafi vantað sam­keppni um stöður í sumar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bjarni Guðjónsson er aðstoðarþjálfari KR.
Bjarni Guðjónsson er aðstoðarþjálfari KR. vísir/bára

Íslandsmeistararnir í fótbolta árið 2019, KR, lentu í 5. sæti Pepsi Max deildarinnar í ár. Aðstoðarþjálfarinn Bjarni Guðjónsson segir að það hafi vantað samkeppni um stöður og sterkari leikmannahóp.

Bjarni var í símaviðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu um helgina og gerði upp tímabilið hjá KR. Fótboltinn var eins og flestum er kunnugt um flautaður af fyrir helgi.

„Við erum alls ekki sáttir með tímabilið. Rúnar er búinn að vinna þrjá Íslandsmeistaratitla og hefur skapast ákveðinn reynsla í hvað gerist árið á eftir svo við pældum mikið í því,“ sagði Bjarni.

„Við ræddum það ekkert mikið við leikmennina en við pældum samt mikið í því hvað við þyrftum að gera og hvað væri hægt að gera öðruvísi en hin árin og svo framvegis. Það eru margir þættir í þessu.“

Hinn reynslumikli Bjarni segir að það hafi vantað samkeppni um stöður hjá Vesturbæjarstórveldinu í sumar.

„Hópurinn hjá okkur var því miður ekki nægilega sterkur og í fyrra. Þar af leiðandi var samkeppnin um stöður ekki mikil. Á miðju sumri var samkeppni um tvær til þrjár stöður en í fyrra þá voru samkeppni um átta til tíu stöður. Það eitt og sér breytir miklu.“

„Svo held ég að það sé ljóst að þessi „stopp og start“ hafi ekki farið vel í eldri leikmenn. Það fer betur í yngri leikmenn sem bregðast betur við. Á endanum erum við samt að spila við lið sem eru líka í þessu. Valsmenn eru líka með eldri leikmenn og þeir fóru í gegnum þetta.“

„Núna þurfum við, eftir að þetta er búið, að setjast niður og fara yfir það sem fór ekki eins og við vildum og ástæðurnar fyrir því,“ sagði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×