Viðskipti innlent

Lögregla rannsakar netsölu hjá brugghúsinu Steðja

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Dagbjartur Arilíusson eigandi Steðja í Borgarfirði hefur ákveðið að láta reyna á einkaleyfi ÁTVR til sölu á áfengi. 
Dagbjartur Arilíusson eigandi Steðja í Borgarfirði hefur ákveðið að láta reyna á einkaleyfi ÁTVR til sölu á áfengi.  Stöð2

Lögreglan á Vesturlandi hefur hafið rannsókn bjórsölu sem eigandi brugghússins Steðja í Borgarfirði stendur að en hann hefur sett upp netverslun þar sem átta tegundir bjórs eru til sölu. Í samtali við Morgunblaðið staðfestir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Vesturlandi að málið sé til rannsóknar.

Í blaðinu er einnig rætt við Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur aðstoðarforstjóra ÁTVR sem segir að þar á bæ líti menn svo á að um skýrt lögbrot sé að ræða. Einkaleyfið sem ríkið hafi til smásölu áfengis sé skýrt.

Dagbjartur Arilíusson segist hins vegar telja að einkaleyfi ÁTVR til áfengissölu standist ekki, með tilliti til EES samningsins. Í krafti hans geti Íslendingar til dæmis pantað og keypt áfengi frá útlöndum og fengið sent heim með pósti og sama hljóti að gilda um íslenska söluaðila. Þá segist Dagbjartur í samtali við blaðið vera ósáttur við þá litlu þjónustu sem ÁTVR veiti smærri framleiðendum. Hann tekur dæmi af jólabjórum Steðja sem nú séu að fara í sölu, en þeir verða aðeins til sölu í tveimur verslunum ÁTVR á landinu öllu.

Því hafi hann ákveðið að bregðast við með netversluninni en hann sendist svo með veigarnar hvert á land sem er og var staddur á Austurlandi í söluferð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×