Skoðun

Þetta er ekki væll – heldur beiðni um að ríkið fram­fylgi lögum

Fríða Stefánsdóttir skrifar

Ég gleymi því aldrei þegar ég þurfti fyrst að fá læknisaðstoð eftir að ég flutti suður með sjó í Sandgerði, þá 14 ára gömul. Ég flutti frá Akranesi (bjó áður í Reykjavík) og þekkti ekkert annað en að vera með minn heimilislækni. Þegar ég þurfti svo á læknishjálp að halda sótti ég þjónustu til heilsugæslunnar í Reykjanesbæ, þar sem ekki var heilsugæsla í minni heimabyggð Sandgerði. Mamma spurði, eins og sjálfsagt var, hvort við gætum fengið að skrá okkur hjá heimilislækni.Svarið kom okkur í opna skjöldu sem var einfaldlega: Það er enginn með heimilislækni á Suðurnesjum, sú þjónusta er ekki í boði fyrir Suðurnesjamenn.

Nú rúmlega 20 árum seinna er þjónustan ennþá afar takmörkuð. Í Suðurnesjabæ búa rúmlega 3600 íbúar sem eru hvorki með heimilislækni né aðgengi að heilsugæslu í heimabyggð.

Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og reglugerðar nr. 1084/2014 segir að markmið með rekstri heilsugæslustöðva er að tryggja öllum landsmönnum fullnægjandi heilsugæslu í heimabyggð. Að hver einstaklingur skal eiga rétt á skráningu á heilsugæslustöð í sinni heimabyggð, að jafnaði þá stöð sem er næst heimili hans. Einstaklingur skal að jafnaði skráður sem skjólstæðingur tiltekins heilsugæslulæknis á heilsugæslustöð og skal heilbrigðisstofnun sem heilsugæslustöð tilheyrir leitast við að tryggja það.

Hversu lengi á ríkið að komast upp með að framfylgja ekki lögum? Hversu lengi þurfum við sveitarstjórnarmenn að þrýsta, trekk í trekk, á ríkið að bregðast við. Nú erum við hjá Suðurnesjabæ búin að sýna framkvæmdastjóra HSS mögulegt húsnæði fyrir heilsugæslu og erum tilbúin að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma til móts við ríkið til að fá þessa grunnþjónustu í sveitarfélagið. En við fáum engar nýjar upplýsingar og engin er uppbyggingin. Ekki nóg með að fá ekki heilsugæslu heldur fengum við einnig neitun frá ríkinu um dagdvalarþjónustu í sveitarfélaginu, þrátt fyrir að sveitarfélagið væri búið að finna tilbúið húsnæði fyrir dvölina og ekki gert ráð fyrir því á fjárlögum næstu ára. Ríkið stafrækir enga þjónustu í Suðurnesjabæ, þrátt fyrir að við séum 16. stærsta sveitarfélag landsins af 72.

Heilbrigðisumdæmin eru sjö. Ef skoðaðar eru upplýsingar og tölur um heilbrigðisstofnanir á síðu embætti landlæknis og íbúafjölda frá Sambandi sveitarfélaga er reiknidæmið ekki flókið og sýnir stöðuna svart á hvítu:

Finnst ráðamönnum við Suðurnesjamenn vera annars flokks fólk, eða kannski ofurmenni sem veikjast sjaldnar?

Nú skora ég á ríkið og heilbrigðisráðherra að setja heilsugæslu í Suðurnesjabæ á dagskrá.

Tökum samtalið og vinnum saman að hag íbúa.

Höfundur er formaður bæjarráðs Suðurnesjabæjar.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×