Erlent

NASA leitar að fyrir­tækjum til að sækja tungl­grjót

Sylvía Hall skrifar
Jim Bridenstine segir segir stofnunina líta til Mars í framtíðinni. 
Jim Bridenstine segir segir stofnunina líta til Mars í framtíðinni.  Vísir/Getty

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, leitar nú að einkafyrirtæki til þess að fara til tunglsins og sækja jarðveg og tunglgrjót til frekari rannsókna. Stofnunin mun svo kaupa sýnin af þeim sem leggja í ferðalagið.

Guardian greinir frá því að stofnunin áætlar að kaupa fimmtíu til hundrað grömm af efninu fyrir 15 til 25 þúsund Bandaríkjadali, eða allt að 3,4 milljónir íslenskra króna. Jim Bridenstine, yfirmaður hjá NASA, segir það nýtast vel í tækniþróunarverkefni sem mun gera geimförum kleift að „lifa af landinu“ í framtíðarverkefnum í geimnum.

Þessi áform eru hluti af Artemis-verkefninu sem gengur út á það að senda menn til tunglsins fyrir árið 2024. Yfirvöld Bandaríkjanna hafa frá árinu 2017 ætlað að lenda mönnum aftur á tunglinu og fór ríkisstjórnin fram á auknar fjárveitingar til stofnunarinnar á síðasta ári.

Verkefnið ber heitið Artemis í höfuðið á grískri gyðju sem var systir guðsins Appolo. Artemis er einmitt gyðja tunglsins í grískri goðafræði.

Stefnan er þó ekki aðeins sett á tunglið, en Bridenstine segir stofnunina ætla að nýta lærdóminn af Artemis-verkefninu, taka „næsta risastóra stökk“ og senda geimfara til Mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×