Viðskipti innlent

Líf­eyris­sjóðir sagðir ætla að hefja gjald­eyris­kaup á ný

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ásgeir Jónsson er Seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson er Seðlabankastjóri. Vísir/vilhelm

Samkomulag Seðlabanka Íslands við lífeyrissjóðina um að þeir gerðu hlé á gjaldeyriskaupum verður ekki framlengt þegar það rennur út í næstu viku. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins sem segja engan vilja til þess hjá sjóðunum að halda áfram að sér höndum í erlendum fjárfestingum sínum.

Samkomulagið hefur varað frá því í mars, eða þegar kórónuveiran lét fyrst á sér kræla, en tilgangur þess er að bregðast við miklum samdrætti útflutnings af völdum faraldursins og stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.

Bent er á það í blaðinu að þrátt fyrir samkomulagið hafi gengi krónunnar gefið eftir um liðlega 20 prósent gagnvart evru á árinu. Það hefur gerst þrátt fyrir að lífeyrissjóðirnir hafi haldið að sér höndum í gjaldeyriskaupum og þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi selt úr gjaldeyrisforða sínum fyrir rúmar 200 milljónir evra. Þetta hefur spornað gegn enn meiri gengisveikingu en ella hefði orðið.

Í blaðinu segir þó einnig að ólíklegt verði að teljast að sjóðirnir sjái hag í því að standa að stórfelldum erlendum fjárfestingum, ekki hvað síst með hliðsjón af því að nafngengi krónunnar gagnvart evru hefur ekki verið lægra frá árinu 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×